140. löggjafarþing — 31. fundur,  5. des. 2011.

staða framhaldsskólanna.

[16:00]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Þegar sú stefna var mörkuð fyrir um það bil 30 árum að byggja upp framhaldsskóla í öllum landshlutum var lagður grunnur að mikilsverðu jafnréttis- og framfaramáli. Enginn efast lengur um gildi þessa fyrir framtíðarmöguleika ungs fólks um allt land til atvinnu og frekara náms og þar með aukinna lífsgæða og -kjara. Ekki aðeins braut þetta niður átthagafjötra til náms, heldur hleyptu framhaldsskólarnir lífi í þau byggðarlög þar sem þeirra naut við. Hið sama hefur gerst og mun gerast vegna háskólastarfsemi víða um land, en það væri tilefni í aðra umræðu.

Á síðustu árum hefur orðið mikil þróun í starfi framhaldsskólanna. Með tilkomu fjölbrautaskólakerfisins varð verknám að viðurkenndu framhaldsskólanámi, og uppbyggingu þess hefur fleygt fram innan skólakerfisins þó að enn skorti nokkuð á heildstæða og markvissa eftirfylgni við verknám í landinu.

Þá hefur á síðustu árum orðið mikil framför í þá átt að opna framhaldsskólann og gefa sem flestum kost á að sækja þangað menntun við hæfi. Ég nefni starfsbrautirnar og svokallaðar almennar brautir sem koma til móts við einstaklinga með sérþarfir. Ég nefni fjarkennsluna og dreifnámið sem stórauka námsmöguleika ungs fólks óháð búsetu og einnig verkefnið Nám er vinnandi vegur sem þegar hefur verið nefnt. Allt miðar þetta að því að opna framhaldsskólann, gera hann sveigjanlegri og minnka þar með brottfall nemenda sem er afar mikilvægt.

Menntamálaráðuneytið hefur á síðustu árum rennt styrkari stoðum undir rekstur framhaldsskóla á landsbyggðinni með því að setja svokallað nemendagólf fyrir fjárveitingar til fámennari skóla og er það til mikilla bóta þó að einhverjum skólum hafi reynst örðugt að fóta sig þrátt fyrir þetta. Þau tilvik þarf líklega að skoða því að fleira getur skipt máli í því efni en fjárveitingarnar einar. (Forseti hringir.) Allt krefst peninga og allt þarf sína umhyggju en gæði skólastarfs og traustur rekstrargrundvöllur framhaldsskóla veltur ekki síst á starfsliði skólanna og styrkri stjórnun.