140. löggjafarþing — 31. fundur,  5. des. 2011.

fjármálalæsi.

153. mál
[16:36]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Magnúsi Orra Schram fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga málefni. Ég vil byrja á að segja frá því að ég staðfesti í vor nýjar aðalnámskrár fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla sem tóku gildi 1. ágúst síðastliðinn og er ætlunin að innleiða þessar námskrár á næstu þremur árum. Aðalnámskrá er nokkurs konar rammi um allt skólastarf á þessum þremur skólastigum, leiðsögn um tilgang þess, markmið og er nánari útfærsla á lögum um viðkomandi skólastig.

Í aðalnámskránum eru skilgreindir sex grunnþættir í menntun allt frá leikskóla upp í framhaldsskóla. Þeir eru læsi í víðum skilningi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun. Fjármálalæsi er hluti af þeirri skilgreiningu á læsi í víðum skilningi, þ.e. að vera læs almennt, ekki bara á tölur heldur líka fjármál, efnahagsmál, peningamál.

Þetta er fyrst og fremst þekkt í námskrám, sem skiptir máli, en hvað hefur verið gert síðan til þess að vinna að þessu sérstaklega? Í júní síðastliðnum skipaði ég stýrihóp til þriggja ára til að efla fjármálafræðslu og neytendavernd í grunn- og framhaldsskólum. Fulltrúi minn í hópnum er Sölvi Sveinsson, skólastjóri í Landakotsskóla og fyrrverandi skólastjóri Verslunarskóla Íslands, og er hann formaður stýrihópsins. Auk hans eru í hópnum fulltrúar frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Landssamtökum lífeyrissjóða, Kennarasambandi Íslands, Heimili og skóla, Neytendasamtökunum, Námsgagnastofnun og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Eins og heyra má er ætlunin að draga þá alla að borðinu sem koma að þessum málum með einhverjum hætti, sveitarfélögin sem reka skólana, kennarana sem kenna í skólunum, Neytendasamtökin, sem eru hin hliðin á peningnum, Samtök fjármálafyrirtækja, Landssamtök lífeyrissjóða og Námsgagnastofnun til þess að skoða hvernig við getum eflt námsefnið.

Stýrihópurinn hefur það hlutverk að gera tillögur um hvernig efla megi fjármálafræðslu í skólakerfinu með hliðsjón af gildandi lögum og aðalnámskrám í samráði við ýmsa aðila, beita sér fyrir þróunarverkefnum í skólum á sviði fjármálafræðslu og neytendaverndar. Ég vænti mikils af starfi þessa hóps. Hann er dyggilega studdur af Samtökum fjármálafyrirtækja og Landssamtökum lífeyrissjóða og ég vona að sá stuðningur nýtist sem best til að efla fjármálafræðslu. Það er mjög mikilsvert, og ég tek undir með hv. þingmanni, að ungt fólk fái markvissa fjármálafræðslu í skólakerfinu til þess að fólk geti orðið virkir, sjálfstæðir og gagnrýnir neytendur í þjóðfélaginu.

Það allt bætist ofan á þá fræðslu sem einstök fjármálafyrirtæki hafa staðið fyrir og ég ætla ekki að tíunda hér, enda er það ekki á vegum ráðuneytisins, en þar hafa einstök fjármálafyrirtæki átt ágætisfrumkvæði.

Þegar kemur að fjármálalæsi meðal almennings byrjum við á að skoða fjármálafræðslu í skólakerfinu en hins vegar má ætla að tillögur nefndarinnar muni nýtast við fræðslu almennings þannig að við munum koma þeim á framfæri við viðeigandi aðila, til að mynda efnahags- og viðskiptaráðuneytið, og ég veit að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra svaraði áðan fyrirspurn frá hv. þingmanni, þannig að ég lít svo á að þar verðum við að horfa til samstarfs fleiri aðila um það hvernig við getum eflt fjármálafræðslu meðal almennings, en ég er handviss um að við getum líka nýtt niðurstöður þessa hóps í það verkefni.