140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

störf þingsins.

[11:10]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Þann 2. nóvember síðastliðinn lagði ég fram fyrirspurn til hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um hagtölur og aðildarviðræður við Evrópusambandið. Rúmum mánuði síðar, í gær, var lesið upp bréf við upphaf þingfundar þar sem efnahags- og viðskiptaráðherra greindi frá því að ekki væri unnt að svara þeirri fyrirspurn innan tiltekins tíma, en frestur var reyndar löngu liðinn, vegna þess að enn væri verið að afla gagna.

Nú standa yfir viðræður við Evrópusambandið eins og flestum er kunnugt og verið er að vinna í því að móta samningsafstöðu Íslands í aðildarviðræðunum, m.a. um 18. kafla sem varðar einmitt Hagstofu Íslands. Á fundi utanríkismálanefndar áðan ræddum við þá samningsafstöðu sem við erum bundin trúnaði um þar til að lokinni ríkjaráðstefnu ESB í mars næstkomandi. Ég leyfi mér að fullyrða eftir þann fund, sem ég get eðlilega ekki fjallað efnislega um þar sem við erum bundin trúnaði, að þau gögn sem hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra þarf á að halda til að svara fyrirspurn minni liggja nú þegar fyrir. Ég leyfi mér að fullyrða það.

Þess vegna er spurning mín til hæstv. forseta þessi: Verður fyrirspurn minni ekki svarað fyrr en í mars þegar trúnaði verður aflétt eða getur hæstv. forseti beitt sér fyrir því að fyrirspurninni verði svarað fyrr vegna þess að það er algerlega óásættanlegt ef rétt reynist að fyrirspurnir frá þingmönnum séu lagðar til hliðar á meðan samningsafstaða er mótuð. Ég get ekki fullyrt um það en það lítur þannig út, frú forseti, og ég bið frú forseta í allri vinsemd um að ganga í það mál.