140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:00]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er mjög gott ef stjórnarandstaðan hefur tillögur sem eru sambærilegar okkar því að þá ættum við náttúrlega að setjast niður og smíða sameiginlegar tillögur til að reyna að koma vitinu fyrir ríkisstjórnina. Hún fylgir einarðlega þeirri stefnu að skattleggja og skattleggja og skattleggja, hækka tekjur ríkissjóðs aftur og aftur og skera auk þess niður í atvinnuleysi, sem þýðir ekkert annað en að fólk fer úr störfum hjá ríkinu yfir í Atvinnuleysistryggingasjóð af því að enga vinnu er að hafa annars staðar, eða þá að það fer til útlanda og borgar þá ekki skatta eftir það.

Í staðinn fyrir að karpa um hver eigi höfundarréttinn að þessum hugmyndum, sem menn geta svo sem deilt um endalaust, ættu menn að vinna saman að þessum atriðum.

Ég velti því mikið fyrir mér með séreignarsparnaðinn og lá heilmikið yfir því hvernig væri hægt að framkvæma þetta tæknilega séð, og flutt var um það frumvarp sem við viljum ekki flytja núna vegna þess að ef það yrði flutt núna er hugsanlegt að ríkisstjórnin mundi hoppa á það og eyða því bara í einhverja vitleysu, eins og hún hefur verið að gera. Ekki er inni í því sú stefna að keyra upp atvinnulífið. Þetta hangir allt saman, sú stefna að keyra upp atvinnulífið, lækka skatta, auka kvóta og annað slíkt til þess að gefa þjóðinni von.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvernig hann hugsar sér þetta nákvæmlega. Ætlar hann að hafa helminginn af séreignarsparnaðinum skattaðan og hinn helminginn óskattaðan? Hvernig ætlar hann að ráða því til framtíðar? Á þá helmingur af inneign hvers manns að vera skattaður, hinn helmingurinn óskattaður? Þetta er til að æra óstöðugan, þ.e. flækjustigið sem myndast.