140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:31]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Lagðar hafa verið fram tillögur um að fella niður niðurskurð þessa árs og draga til baka frestanir frá því í fyrra. Við viljum ganga lengra og leggjum til að niðurskurður umfram 4,7% á síðasta ári verði bættur þeim stofnunum víðs vegar um landið sem hann fengu.

Það er einfaldlega ólíðandi, virðulegi forseti, og það er ekki of oft sagt, að verið sé að breyta heilbrigðiskerfi landsmanna í gegnum fjárlögin án umræðu. Við kröfðumst þess fyrir ári að gerð yrði úttekt á áhrifum niðurskurðarins á landsbyggðinni, hvort hann skilaði niðurstöðu, og það hefur ekki enn verið gert.

Virðulegi forseti. Ég segi að sjálfsögðu já og þykir miður að hin svokallaða velferðarstjórn ætli ekki að gera hið sama.