140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:56]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er með mikilli gleði í sinni sem ég styð þetta mál. Hér er verið að setja 55 millj. kr. á Litla-Hraun m.a. til að bæta úr öryggismálum, og 190 millj. kr. í hönnun nýs fangelsis á Hólmsheiði með 56 rýmum. Þar á að vera gæsluvarðhald, skammtímavistun og kvennafangelsi. Þá verður hægt að loka Hegningarhúsinu og Kvennafangelsinu í Kópavogi.

Málið hefur verið undirbúið ágætlega af innanríkisráðuneyti, fjármálaráðuneyti og fangelsismálayfirvöldum. Við gátum á grundvelli þeirra tillagna sem við fengum til okkar tekið ákvörðun út frá tölulegum forsendum. Þingmenn gátu valið milli kosta og völdu ódýrasta kostinn bæði varðandi stofnkostnað og rekstrarkostnað þannig að hér er farin rétt leið. Ég tel að hér sé um mjög stórt skref í jákvæða átt í fangelsismálum að ræða þannig að ég vil óska ykkur til hamingju með að taka það skref í dag, svo þarf bara að klára málið á seinni stigum.