140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:04]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Hér er verið að bæta í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Málefni sveitarfélaga hafa meðal annars verið til umræðu í umhverfis- og samgöngunefnd, sem hefur með þau að gera, og óhætt er að segja að sveitarstjórnir í mörgum sveitarfélögum hafa gríðarlegar áhyggjur af stöðu mála.

Það er ljóst að mörg sveitarfélög, ekki hvað síst úti á landi, lítil og meðalstór, eru í gríðarlegum vanda eftir þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að kippa aukaframlaginu algerlega út og setja það til stuðnings einu sveitarfélagi og ljóst að þau munu ekki ná endum saman á næsta ári og munu eiga mjög erfitt með að sinna sínu lögbundna hlutverki.

Ofan á niðurskurðinn í heilbrigðismálunum, sem hefur verið gríðarlegur víða úti á landi, og mun hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar, er líka verið að taka þessi sömu sveitarfélög, þessi litlu sveitarfélög úti á landi, og þrengja ólina alveg upp í kok.