140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

skyldutrygging lífeyrisréttinda.

368. mál
[12:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég hlýt enn þá að kvarta undan því að nú er enginn úr hv. efnahags- og viðskiptanefnd við umræðuna. Tveir úr nefndinni hafa öðru hverju verið í þingsal en hvorki formaður nefndarinnar, hv. þm. Helgi Hjörvar, né 1. og 2. varaformaður, hv. þm. Þráinn Bertelsson og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir. Reyndar kom einn varamaður hingað inn, hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, en hann situr venjulega ekki fundi nefndarinnar þannig að þegar málið verður rætt, væntanlega fyrir jól því að þetta á að afgreiðast snarlega, veit nefndin ekkert af umræðunni. Ég hlýt að gagnrýna þetta, frú forseti. Ég vona að forseti komi þeim skilaboðum áfram til að ég sé ekki að tala út í loftið. Meira að segja flutningsmaður málsins er farinn úr þingsal, frú forseti, hæstv. fjármálaráðherra. (Fjmrh.: Ég er í hliðarherbergi.) Flott, ég heyri í honum.

Núverandi ríkisstjórn hefur verið eins iðin við að flækja skattkerfið og ráðast á fjármagn og hún mögulega getur. Það er búið að hækka skatta á sparnað úr 10% í 20%, meira að segja farið að virka afturvirkt sem reyndar er í kæruferli. Fjöldamargir hafa lent í því sem lánuðu ríkissjóði einu sinni fé að ríkissjóður sjálfur er farinn að skattleggja með 20% alveg aftur til 1997, sem sagt 14 ár aftur í tímann. Það er óhæfa.

Lífeyrissjóðurinn er þvingaður sparnaður heimilanna í landinu og að mínu mati er sparnaðurinn eign heimilanna. Þetta eru 17 milljónir á hvert heimili og þess vegna varðar mjög miklu hvernig með þetta fé verður farið.

Hluti af lífeyrissjóðunum, þ.e. þeir opinberu, LSR og Lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga, er með beina eða óbeina ríkisábyrgð, beint á B-deildina og svo er ríkisábyrgð á A-deildina sem segir í lögunum. Ég skil ekki af hverju því er ekki framfylgt. Í 4. mgr. 13. gr. laganna um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, nr. 1/1997, stendur, með leyfi frú forseta:

„Leiði tryggingafræðileg athugun í ljós að iðgjald sjóðfélaga til sjóðsins ásamt mótframlagi atvinnurekenda dugi ekki til greiðslu á skuldbindingum sjóðsins skal stjórn sjóðsins hækka framlag launagreiðenda í samræmi við niðurstöðu athugunarinnar.“

Þetta á sem sagt allt að vera á núlli samkvæmt þessari grein. Ég er ekki búinn að kanna nákvæmlega hvort það er einhvers staðar bráðabirgðaákvæði um að hægt sé að víkja frá þessu, en það á sem sagt að hækka iðgjald launagreiðanda — og hver skyldi hann vera, frú forseti? Það er hæstv. fjármálaráðherra. Inn í fjárlögin sem voru samþykkt í gær vantar hækkun á iðgjöldum nokkur ár aftur í tímann af því að stjórn sjóðsins hefur ekki staðið við þetta ákvæði laganna. Ég spyr bara hæstv. ráðherra eins og ég gerði áðan: Af hverju hefur stjórnin ekki hækkað iðgjaldið? Getur verið að hún megi það ekki af því að það eykur skuldbindingu á fjárlögum? Það vantar um 4 prósentustig, iðgjaldið þarf að vera 19,5% í staðinn fyrir 15,5%, og búið að liggja fyrir lengi að það þarf að hækka það vegna hrunsins og breyttra aðstæðna, hærri lífaldurs o.s.frv.

Maður hlýtur að spyrja: Hvernig stendur á því að stjórn sjóðsins framkvæmir ekki lög? Getur hún jafnvel orðið skaðabótaskyld, frú forseti, með því að fara ekki að lögum? Það væri gaman að vita hvað þetta er stór upphæð því að síðast þegar ég kíkti vantaði 45 milljarða inn í sjóðinn til að framreiknuð iðgjöld stæðu á móti framreiknuðum skuldbindingum. Það er það sem á að standast á samkvæmt 4. mgr. 13. gr. laganna um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.

Hér varð nokkur umræða áðan um aukaframlög ríkisins inn í B-deildina. Í B-deildina vantar núna minnir mig um 400 milljarða, það er bara heilt stykki Icesave. Reyndar fór hæstv. fjármálaráðherra létt með að samþykkja Icesave á sínum tíma, skrifaði undir í hvelli 5. júní 2009, en sem betur fer hafði þjóðin vit fyrir honum.

Það vantar í B-deild sjóðsins 300–400 milljarða og það hefur ekki verið bætt, en fyrri ríkisstjórnir bættu það nokkuð myndarlega með framlögum sem byrjuðu í 12 milljörðum og lækkuðu síðan á hverju ári, því miður — því miður lækkuðu framlögin og hafa nánast engin verið síðustu þrjú árin. Það er kannski eðlilegt eftir hrun að menn séu ekki með aukagreiðslur inn í B-deildina. Þessi aukaframlög inn í B-deildina eru núna tæplega 150 milljarða virði þannig að umtalsverð upphæð hefur verið borguð þarna inn og er orðin með vöxtum 150 milljarðar. Það las ég út úr súluriti og hafði ekki tíma til að lesa meira.

Í þessu frumvarpi eru tvær skuldbindingar lagðar á lífeyrissjóðina. Í 3. gr. segir að greiða eigi iðgjald sem er 0,13% af samanlögðum iðgjaldsstofni til allra sjóðfélaga til VIRK. Ég veit ekki nákvæmlega hvort átt er við 4% eða öll 15,5% eins og eru í dag. Þetta er a-liðurinn, en í c-liðnum er lagður eignarskattur á lífeyrissjóðinn sem er alveg stórhættulegt fyrirbæri, 0,0814% af hreinni eign til greiðslu lífeyris. Það á að lækka lífeyrinn sem stendur á móti þessu, minnka réttindin. Þetta væri svo sem í lagi ef þetta væri á alla lífeyrissjóðina því að það má færa rök fyrir því að VIRK sem er endurhæfing öryrkja sem ég hef alla tíð verið mjög hlynntur — það væri í lagi ef allir lífeyrissjóðirnir borguðu það, þeir hagnast allir á þessu, þeir hagnast á því þegar menn hætta að vera öryrkjar, þá líka Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins þó að örorka sé reyndar ekki mjög algeng þar.

Síðan má líka segja að hitt ákvæðið, um vaxtaniðurgreiðsluna, komi lífeyrissjóðnum til góða en það sem gerist er að bara almennu sjóðirnir munu greiða þetta í reynd vegna ákvæðis um að hægt sé að hækka iðgjald á ríkið sem ríkið nær þá væntanlega inn með sköttum hjá þessu sama fólki og þarf að skerða réttindin hjá. Lífeyrissjóðirnir eru í þeirri stöðu í dag að þeir munu nánast allir þurfa að skerða réttindi, alveg sérstaklega þegar ekki næst í ávöxtun á féð vegna þess hve dapurlegir fjárfestingarmöguleikarnir á Íslandi eru orðnir í kjölfar skattstefnu ríkisstjórnarinnar sem ætlar sér að leysa hrunið með auknum sköttum og niðurskurði, hvort tveggja mjög hættulegt og að mínu mati alrangt.

Ég veit ekki hvort ég hef öllu fleiri orð um þetta en mér þætti vænt um að heyra af hverju stjórn LSR hefur ekki farið að lögum hingað til. Hún er skipuð af fjármálaráðherra, held ég að öllu leyti, þannig að hann ber þannig ábyrgð á þessu, þetta gerist á hans vakt. Það væri gaman að heyra hjá hæstv. fjármálaráðherra hvernig á því stendur að þarna hefur orðið til skuldbinding sem var 40 milljarðar síðast þegar ég vissi en er sennilega orðin töluvert meiri.

Það sem gert er ráð fyrir í þessum greinum, bæði með VIRK og eins með vaxtaniðurgreiðsluna, er í sjálfu sér jákvætt. Það væri jákvætt ef það kæmi ekki svona út vegna þess hvernig lífeyrissjóðakerfið er uppbyggt. Það vill svo til, frú forseti, að ég benti á það þegar árið 1997 héðan úr þessu ræðustól að við værum að búa til tímasprengju með þrenns konar réttindum sjóðfélaga. Almennu sjóðirnir þurfa að standa undir þessu sjálfir. A-deildin er með tryggð réttindi en breytilegt iðgjald ríkisins, sem náttúrlega bara hækkar, og B-deildin er með ógreiddri skuldbindingu sem aldrei hefur verið bókfærð. Þar eru margfalt betri lífeyrisréttindi en í báðum hinum. A-deildin er reyndar með betri lífeyrisréttindi en almennu sjóðirnir sem hafa þurft að skerða lífeyri og munu þurfa að skerða lífeyri. Þessi tímasprengja er núna að springa og þá á að fara að gera eitthvað, 13 árum seinna eða hvað það nú er. Ég varaði þáverandi ríkisstjórn mjög alvarlega við aðlögunarsamningum. Ég vona að hæstv. ráðherra muni það. Ég kom aftur og aftur í ræðustól og varaði við þessari tímasprengju. Menn geta líka flett upp í ræðunum mínum frá þeim tíma.

Núna stöndum við hér og það þarf að fara að jafna þessi lífeyrisréttindi og þá kemur eignarrétturinn til skjalanna, frú forseti. Reyndar hefur hæstv. innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson, sagt að eignarrétturinn sé svona og svona, hann ber ekki mikla virðingu fyrir honum eða þannig. Hann hefur sagt að það þurfi að skoða eignarréttinn og ég vona að hann skoði þá líka eignarréttinn í B-deildinni þar sem opinberir starfsmenn, sem hann var nú einu sinni í forsvari fyrir, eiga sinn rétt. Ég geri ráð fyrir að þá muni eignarrétturinn halda til hins ýtrasta þegar á að fara að gæta að réttindum opinberra starfsmanna í B-deildinni. Ég er alls ekki að leggja til, frú forseti, að eignarrétturinn verði skertur þar en ég bendi bara á þetta af því að hæstv. innanríkisráðherra hefur talað um að eignarrétturinn sé ekki svo mikils virði.

Hér er sem sagt verið að leggja tvöfaldar álögur á almennu sjóðina. Ég hef varað við því, bæði í umræðum um fjárlagafrumvarpið og eins núna, og svo finnst mér slæmt að stjórn LSR hafi ekki farið að lögum. Það geta vel verið skýringar á því sem hæstv. fjármálaráðherra kemur með þannig að við getum andað léttar og sagt að iðgjaldið í A-deildina dugi.