140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

þjóðskrá og almannaskráning.

363. mál
[18:09]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 54/1962, um þjóðskrá og almannaskráningu, með síðari breytingum. Efni frumvarpsins lýtur annars vegar að því að styrkja stoðir fyrir gjaldtöku á sölu upplýsinga úr þjóðskrá til að skapa annars vegar fjárhagslegan grundvöll til að undirbúa og framkvæma endurgerð tölvukerfa Þjóðskrár og hins vegar að lagatæknilegu atriði.

Tölvukerfi þjóðskrárinnar er að stofni til frá árdögum tölvualdar hér á landi. Skráin er rekin í þremur mismunandi kerfum sem nauðsynlegt er að fella saman í eitt kerfi. Þá eru bagalegir ágallar á kerfunum þannig að hvorki er mögulegt að skrá fullt nafn einstaklings í skrána fari nafnið umfram tiltekinn fjölda bókstafa vegna þess hve nafnasvæði hennar er stutt né skrá forsjármenn barna.

Rétt er að vekja athygli á því að fyrir liggja tvö álit umboðsmanns Alþingis um að kerfi Þjóðskrár fullnægi ekki skráningarþörfum með viðunandi hætti. Með því að tilgreina tekjustofna Þjóðskrár Íslands á þann máta sem lagt er til í frumvarpinu er vonast til þess að unnt verði að skapa fjárhagslegt svigrúm til að hægt verði að undirbúa og framkvæma endurgerð tölvukerfa Þjóðskrár.

Frumvarpið felur í sér tillögu um að styrkja stoðir fyrir gjaldtöku upplýsinga úr þjóðskrá og að skýrt komi fram í lögum að þeir aðilar sem þurfa upplýsingar úr þjóðskrá vegna embættisrekstrar eða starfsemi sinnar greiði gjald fyrir þær upplýsingar. Jafnframt er lagt til að fjárhæðir gjalds fyrir helstu upplýsingar úr þjóðskrá verði tilteknar í lögum, þ.e. gjald fyrir almennar upplýsingar úr þjóðskrá og gjald fyrir útgáfu vottorða. Gjöld þessi hafa um árabil runnið til skráarhaldara, nú Þjóðskrár Íslands, og er gert ráð fyrir að það haldist óbreytt.

Í frumvarpinu er lagt til að frá og með 1. janúar 2012 greiði viðskiptavinur 2.500 kr. gjald fyrir vottorð, en gjald fyrir vottorð nú er ýmist 900 kr. eða 1.800 kr. Er áætlað að þetta leiði til 23 millj. kr. tekjuauka fyrir Þjóðskrá Íslands. Fyrir almennar upplýsingar um einstaklinga þar sem fyrirspurn er beint í gagnagrunn þjóðskrár er gert ráð fyrir að gjaldið verði 20 kr. í stað 6 kr. nú og hægt verði að fá ítarlegri upplýsingar með 20 kr. viðbótargjaldi. Áætlað er að sú þjónusta geti leitt til 30 millj. kr. tekjuauka.

Ég vil vekja athygli á að í greinargerð frumvarpsins er fyrir misritun tilgreindar rangar tölur um þann tekjuauka sem af breytingum þeim leiða sem frumvarpið fjallar um. Hið rétta er að heildartekjuaukinn vegna umræddra breytinga gæti leitt til 53 millj. kr. tekjuauka fyrir Þjóðskrá Íslands. Umsögn fjármálaráðuneytisins byggir á þeim tekjuauka.

Í frumvarpinu er auk þess lagt til að 17. gr. laganna falli brott, en það ákvæði fjallar nú um að iðgjöld til almannatrygginga og sóknargjöld skuli lögð á menn á sömu stöðum og tekjuskattur er lagður á eftir íbúaskrá 1. desember hvert ár samkvæmt lögum um tekjuskatt. Ákvæðið á ekki lengur við. Árið 2009 var landið gert að einu skattumdæmi. Um sóknargjöld fer nú að lögum um sóknargjöld, nr. 91/1987, og um iðgjöld almannatrygginga fer nú samkvæmt 59. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007.

Hæstv. forseti. Ég hef gert grein fyrir helstu atriðum frumvarpsins og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.