140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

opinberir háskólar.

378. mál
[18:44]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem hér upp til að þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir uppbyggjandi svör um að hún telji að við þurfum að hafa augun opin þegar kemur að kjörum stúdenta hér á landi. Það er allt rétt sem kom fram í máli hæstv. ráðherra um framfærslugrunninn og hækkunina á honum. Það breytir samt ekki þeirri staðreynd að atvinnuleysisbætur eru mun hærri en grunnframfærslan. Það sem ég benti á í minni stuttu ræðu áðan er að við eigum ekki að búa til kerfi sem letur fólk til náms, síst á tímum sem þessum, og ég benti líka á muninn á annars vegar atvinnuleysisbótum og hins vegar framfærslugrunninum.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir uppbyggjandi svör þess efnis að við eigum að skoða þessi mál betur og að allsherjar- og menntamálanefnd muni fara yfir þau á komandi vikum og mánuðum. Ég geri mér jafnframt grein fyrir því að hæstv. ráðherra er í erfiðri stöðu við að forgangsraða innan ráðuneytisins. Engu að síður er það staðreynd að verið er að hækka innritunargjöldin svokölluðu um þriðjung.

Mér finnst að ég þurfi að geta þess í þessu erfiða máli og vegna svara hæstv. ráðherra að mér finnst að fleiri hæstv. ráðherrar mættu temja sér þá framkomu eða það viðhorf sem mér finnst einkenna störf hæstv. menntamálaráðherra í þessu máli. Mér finnst hún oft vera lausnamiðuð og kannski ekki hafa það að markmiði að vera í miklum átökum þegar kemur að málefnalegri umræðu í þinginu. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæt svör þó að við séum ekki sammála að öllu leyti en tel nauðsynlegt að við skoðum þessi mál (Forseti hringir.) mjög ítarlega á Alþingi Íslendinga vegna þess að við erum að tala um stórmál.