140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

381. mál
[20:21]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er undrandi á þessu þingmáli, kannski vegna þess að ég sat ásamt hv. 1. flutningsmanni í allsherjarnefnd þeirri sem eitt sinn var til og samþykkti það lagaákvæði sem hér um ræðir í september á þessu ári. Við vorum sem sé bæði samþykk því. Þess vegna er undarlegt að fá núna, þegar rétt vika er eftir af þinginu, frumvarp án frekari fyrirvara um að þessu þurfi að breyta. Það kemur sem sé þessa leið, það kemur úr nefndinni, það eru sex nefndarmenn sem flytja þetta en ekki ráðherra. Ef það hefði verið ráðherra þá hefði það farið aðra leið, fengið aðra þinglega meðferð og kannski hefðu menn þá frétt af því fyrr, t.d. í þingmálaskrá eða að minnsta kosti hvað okkur stjórnarþingmenn varðar í meðferð þingflokka. Látum vera.

Það kann vel að vera að það séu vandamál sem tengjast þessu og við komum ekki auga á eða gættum ekki nægilega að í allsherjarnefnd á sínum tíma. Það var hins vegar þannig, forseti, að sú allsherjarnefnd gaf heila þrjá mánuði, októbermánuð, nóvembermánuð og desembermánuð, til að leysa slíkan vanda og ætlaðist til að hann yrði leystur — og septembermánuð, fyrirgefið, það eru fjórir mánuðir því þetta var samþykkt, held ég, í lok ágúst. Um þetta mál stóð gríðarlegur styr í september eins og menn muna en þá var reyndar enginn vafi látinn í ljós um þetta atriði.

Lausn þeirra hv. flutningsmanna sex er sú að gefa alllangan tíma til að íhuga hvað gera skuli í þessu erfiða vandamáli. Þar hefur boðið sig fram sérfræðingurinn Róbert R. Spanó sem fjallar um þessi álitaefni í mörgum liðum, það er 31 liður sem hann hefur samið í tilefni af þessu, ef hann væri ekki orðinn magister eða doktor þá gæti hann orðið það út á þetta, sýnist mér, því að hér er þetta mál teygt, þvælt og togað eins og nokkur möguleiki er á.

Í huga mínum og annarra, sem ég ræddi við í dag á göngum þingsins og í síma, sem sátu í þeirri nefnd sem þetta samþykkti var alveg ljóst að þessi 30 ár ætti enginn aðgangur að vera að þessum gögnum, enginn. Það var meiningin. Nú kann að vera að við í allsherjarnefnd, þar með hv. 1. flutningsmaður, höfum ekki getað orðað þetta nægilega vel í lögunum. En þá spyr ég: Er ekki einfaldara, frekar en gefa þessa 11 mánuði í viðbót við mánuðina þrjá, eða 10 og hálfan af því að þetta á að taka gildi 1. nóvember, samtals 13 og hálfan mánuð, að setja það í lögin að breyta þessu lagafrumvarpi þannig að í lögin komi að þessi gögn séu engum aðgengileg fyrr en eftir 30 ár og verði ekki á þau hlustað? Ef þarf má segja að það sé hvorki saksóknari né landsdómur né umboðsmaður Alþingis né rannsóknarnefndir þingsins né þingnefndirnar eða þeir aðrir sem hér voru nefndir áðan og menn höfðu áhyggjur af sem hafa ekki aðgang að þessum gögnum. Allsherjarnefnd átti klárlega við að þetta væru sagnfræðileg gögn af svipuðu tagi og við vitum af í öðrum löndum. Ég skal ekki segja að þar séu ríkisstjórnarfundir teknir upp en það er ljóst að okkur eru sífellt að berast nýjar og nýjar upplýsingar, gögn sem hefur verið alger trúnaður á í þetta og þetta mörg ár.

Ef menn komast að því, t.d. í samráði við Róbert R. Spanó prófessor, að einhvers konar undantekningar þurfi að vera, þó ekki meiri en þær undantekningar sem eru á öðrum leyndargögnum í löggjöf okkar — ég fann engar slíkar undantekningar við hraða leit í lögum um Þjóðskjalasafnið, í upplýsingalögunum og í persónuverndarlögunum en ég veit að þær eru fyrir hendi því frumvarpi sem við fjölluðum um í allsherjarnefnd á sínum tíma, þá er kannski eitt ráð, í staðinn fyrir að gefa 11 mánaða vinnufrest fyrir Róbert R. Spanó og aðra sérfræðinga að setja þær undantekningar inn í lögin, að nefna þær undantekningar í lögunum, ef bent er á að þær þurfi.

Ég get svo sem ímyndað mér, ég veit ekkert um það, ég er ekki sérfræðingur í þessu, að ef um landráð væri að ræða eða einhvern hræðilegan glæp væri hugsanlegt að veita undantekningu og mæla þá fyrir um hvernig með það skuli fara. En ég get almennt ekki hugsað mér neitt annað í þessu.

Ég ætla ekki að fara að hafa orð eftir einstökum nefndarmönnum, en nefndarmaður sem var ekki hlynntur þessu máli spurði: Ja, 30 ár, kemur ekki bara næsta þing og samþykkir að fella þetta út og þar með fara menn að skoða hvað sagt er, hvernig gögnin líta út fyrir þá ríkisstjórn sem áður sat eða þær ríkisstjórnir? Það er auðvitað alveg rétt að við setjum öll lög á þinginu þannig að næsta þing getur komið og breytt þeim. Ég held hins vegar, og það varð niðurstaða okkar í nefndinni eða að minnsta kosti okkar sem studdum þetta mál, að þetta mundi ekki gerast, það væri afar ósennilegt að gögn sem þessi trúnaður hvíldi á yrðu rifin upp og sett fyrir hund og kött nema verulegar breytingar yrðu í samfélaginu frá því sem nú er. Menn mundu sem sé virða þennan trúnað jafnvel þó að þeir teldu rétt að breyta lögunum gagnvart þeim ríkisstjórnarfundum, gagnvart þeim gögnum sem til verða á hverjum tíma.

Ég spyr um þetta, forseti, vegna þess að mér þykir óþægilegt að hafa staðið að samþykkt og vinnslu frumvarps sem varð mjög umdeilt og finnast síðan að tregða sé við að standa við þau ákvæði sem Alþingi samþykkti, eftir miklar umræður, að hafa í frumvarpinu. Við skulum segja að það gæti litið þannig út, svo að ég viðhafi ýtrustu kurteisi í málinu, að þingmenn og ráðherrar kinoki sér við að ganga til framkvæmdar á því ákvæði sem vilji Alþingis stóð til að tæki gildi nú um áramótin. Þar sem ég veit að sú kinokun er missýning hvet ég flutningsmanninn, sem jafnframt er formaður hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur, til að íhuga mjög vandlega hvort hægt er að fara þá leið sem ég legg til í mínu nafni og nokkurra annarra fyrrv. allsherjarnefndarmanna frá því í september, þar á meðal hv. þm. Þráins Bertelssonar, sem ég ræddi við í síma í dag um þetta, hvort hægt er að fara þessa leið í staðinn fyrir að fresta málinu um 11 mánuði og hafa þá samtals næstum því 14 og kosta til mikilli rannsókn og fleiri skýrslum frá Róbert Spanó og öðrum prófessorum og doktorum og spekingum í lagadeildum háskólanna.