140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

breytingar á evrusamstarfi og umsókn Íslands.

[13:59]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Þær breytingar sem eru að verða á samstarfi evruríkjanna, og voru til umræðu fyrr í dag, leiða hugann að þeirri spurningu hvort stjórnmálaaflið Vinstri grænir ætli sér að halda fast við að sækja um aðild að Evrópusambandinu (Gripið fram í: Þú vildir það líka.) Nei, hér var kallað fram í, og ég greiddi atkvæði gegn því. (Gripið fram í.) Ég vil síðan (Gripið fram í.) halda áfram með fyrirspurn mína ef ég fæ frið til en hún snýr að því að þær breytingar sem hafa sýnt sig þessa dagana um samstarf evruríkjanna, eru á þann veg að allir skynsamir menn, meira að segja þeir sem hafa verið tilbúnir að ræða opinberlega hvort skynsamlegt hafi verið að sækja um eða ekki, hljóta að sjá að forsendur vegna þessa samstarfs hafa breyst og eru þess eðlis að umsóknin sem samþykkt var hér á Alþingi og það umboð sem samþykkt var til handa ríkisstjórninni hlýtur að vera til endurskoðunar.

Evruríkin 26, annars vegar þau sem þegar hafa tekið upp evruna og hins vegar þau sem ber samkvæmt lögum Evrópusambandsins að gera slíkt, hafa sagt: Við ætlum að vinna miklu nánar saman, við ætlum að gefa frá okkur miklu meira fullveldi en felst í Evrópusambandssamstarfinu núna. Þetta þýðir að þeir sem sækja um aðild að Evrópusambandinu núna, eins og við Íslendingar, munu að sjálfsögðu þurfa að ganga inn í það samstarf ef þjóðin segir já við slíku. Eða sér það einhver fyrir sér, frú forseti, að Íslendingar einir evruþjóða muni standa fyrir utan samstarf þeirra rétt eins og Bretar gera með sitt pund? Augljóslega ekki.

Nú þegar liggur fyrir að umsókn um aðild að ESB þýðir jafnframt aðild að því samkomulagi sem evruþjóðirnar 26 — það er að segja þessar 17 auk hinna sem er skylt að taka evruna upp síðar — hafa komið (Forseti hringir.) sér upp, hlýtur það að kalla á þessa spurningu til hæstv. fjármálaráðherra og formanns Vinstri grænna: Er ekki eðlilegt að stöðva viðræðuferlið, leggja mat á stöðuna og leyfa þjóðinni síðan að ákveða hvort sækja eigi um aðild eða ekki?