140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[17:39]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er leiðinlegt eins og ég lagði mig fram í málflutningnum hér áðan að hafa valdið hv. þingmanni svo gríðarlega miklum vonbrigðum að hann skyldi lýsa stefnu Framsóknarflokksins með þeim hætti sem hann gerði.

Málið er að Framsóknarflokkurinn hefur nálgast þetta úrlausnarefni með allt öðrum hætti en hin svokallaða velferðarstjórn hefur verið að gera. Það höfum við gert með ítrekuðum tillögum um eflingu efnahagslífsins og hvernig við getum fjölgað störfum svo þúsundum skiptir í íslensku atvinnulífi. Við búum hins vegar við það að Framsóknarflokkurinn er í minni hluta á Alþingi. Við búum við ríkisstjórn sem hefur einfaldlega ekki verið sammála þeim áherslum sem Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram allt frá því í ársbyrjun 2009. Þetta er einfaldlega staðan.

Sem betur fer hefur Framsóknarflokkurinn þó náð að hafa áhrif á ýmis stór mál. Það hefur reyndar tekið á og við höfum þurft að vera öflug í þingsalnum og hlotið nokkuð miklar skammir fyrir. Við höfum þurft að beita okkur af mikilli hörku til að koma í veg fyrir að mörg af hugðarefnum hæstv. fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, rynnu átakalaust í gegnum þingið. Vil ég þá nefna hvernig Icesave-málið var þegar margir stjórnarliðar sögðu efnislega að íslenska þjóðin ætti hreinlega að skammast sín. Þetta væru skuldbindingar sem þjóðin ætti að taka á sig. Við vorum ekki sammála því í Framsóknarflokknum, þannig að okkur greinir hér á um ýmsa hluti. Ég man að hv. þingmaður og hans samherjar komu upp og lýstu oft yfir vonbrigðum með Framsóknarflokkinn í allri þeirri umræðu. Staðreyndin er sú að ef við hefðum samþykkt það frumvarp sem fyrst var lagt fram hefði það þýtt 42 þús. milljónir bara í vexti á hverju ári sem íslenska þjóðin hefði þurft að greiða. Þannig að það er margt sem greinir Framsóknarflokkinn frá þessari ríkisstjórn.

Mér þykir leitt að ég skuli hafa valdið hv. þingmanni svo miklum vonbrigðum sem raun ber vitni.