140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[21:51]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að allir sem hafa fylgst með þessari umræðu og reyndar fjárlagaumræðunni þar sem menn vörpuðu fram mjög áhugaverðum spurningum er snertu tekjuhlið frumvarpsins sjái að þetta verklag gengur einfaldlega ekki upp. Þetta er ekki það nýja Ísland sem við ætluðum að skapa og ég er sammála hv. þingmanni um að þetta er nokkuð sem við þurfum að skoða strax eftir áramótin þannig að við lendum ekki aftur í verklagi sem þessu. Þetta er einfaldlega ekki með þeim hætti sem við höfum viljað hafa það. Gríðarlega mikil þekking býr í báðum nefndunum en ég upplifði það núna í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins að hún var algjörlega sniðgengin þegar kom að umsögnum um mikilvægasta frumvarp sem hver ríkisstjórn leggur fram, fjárlagafrumvarp ársins.

Þetta hefur einfaldlega brugðist við gerð þingskapa. Við spurðum í nefndinni hvort það væri virkilega þannig að við ættum ekki að veita umsögn um forsendur tekjuhliðar fjárlagafrumvarpsins og það kom skýrt fram að hugmyndin væri að við gerðum það ekki.

Að lokum tek ég undir með hv. þingmanni að mér finnst ansi merkilegt að sjá hversu mikil áhersla er lögð á það af hálfu ríkisstjórnarinnar á síðustu dögum þingsins að skattleggja almennu lífeyrissjóðina sérstaklega, að ætla að láta fulltrúa almennings í almennu lífeyrissjóðunum bera kostnað af þessari vaxtaniðurgreiðslu, sérstaklega á meðan opinberir starfsmenn halda sínum réttindum. Það var verið að auka misvægið á milli almenna launamannsins og hins opinbera. Þetta er þvert á það sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur lofaði aðilum vinnumarkaðarins (Forseti hringir.) að hún mundi beita sér fyrir, að þetta bil yrði ekki breikkað heldur minnkað.