140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[22:26]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það getur verið erfitt að horfa upp á þingflokk Vinstri grænna þegar kemur að atkvæðagreiðslum um tillögur sem eiga að auka jöfnuð í samfélaginu og tryggja grunnvelferðarþjónustuna og sjá hann greiða atkvæði gegn tillögum sem miða að því að tryggja grunnþjónustuna og auka jöfnuð.

Því miður virðist því þannig farið að þegar flokkar komast til valda á Alþingi séu öll kosningaloforð og öll grunngildi lögð til hliðar og það eina sem skiptir máli er að sitja á valdastólum. Þessu þarf að breyta. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að traust almennings á Alþingi og framkvæmdarvaldinu er lítið sem ekki neitt. Fólk ber minna traust til fjármálakerfisins, það er sem sagt eini aðilinn sem hefur minni trúverðugleika hjá almenningi en Alþingi.

Þessu verður að breyta og það gerist ekki nema að hér verði til stjórnmálaflokkar sem standa við stefnuskrá sína og kosningaloforð þegar þeir komast til valda.