140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[23:04]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það var tvennt sem hv. þingmaður nefndi. Ég ætla að byrja á því seinna, þ.e. um sérhagsmunagæslu varðandi auðlegðarskattinn. Það er fleira á bak við það. Ef gefa ætti upp verðmæti réttinda í lífeyrissjóðum sem er mjög auðvelt að gera og er reiknað út á hverju einasta ári, verðmæti lífeyrisréttinda hvers einasta Íslendings er reiknað á hverju ári, þá mundi koma í ljós hvað fólk á í lífeyrissjóðunum. Það er að meðaltali um 17 milljónir á hvert heimili, þ.e. 2 þús. milljarðar deilt með 120 þús. heimilum. Þá færu menn kannski að gera meiri kröfu til að fá að stjórna þessu fé. Þetta er hagsmunagæsla á báða bóga. Þeir sem ráða í ráðuneytunum eru með mjög góð lífeyrisréttindi og vilja að sjálfsögðu ekki borga auðlegðarskatt og svo vilja þeir ekki upplýsa um verðmætið.

En mig langar að koma inn á 3,5% vaxtaviðmið lífeyrissjóðanna. Þetta heitir vaxtaviðmið og var ákveðið á sínum tíma upp úr 1980 þegar lífeyrir var verðtryggður hjá lífeyrissjóðunum, að mínu frumkvæði reyndar, og þá var miðað við að þetta yrði meðalávöxtun hjá lífeyrissjóðunum til að mismuna ekki árgöngum innan lífeyrissjóðanna þannig að sá sem væri nýbyrjaður yrði jafnsettur og sá sem væri að fara á lífeyri. Þetta hefur staðist nokkurn veginn en það stenst ekki mikið lengur vegna þess að það eru engir ávöxtunarmöguleikar í boði hér á landi og lífeyrissjóðirnir sitja uppi með miklar fjárhæðir á bankabókum með nánast engum vöxtum. Af þeim sökum þurfum við bráðlega að taka á mjög alvarlegum vanda lífeyrissjóðanna.