140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[23:06]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hjartanlega sammála því sem hv. þingmaður segir varðandi sérhagsmunagæsluna og líka hve mikilvægt er allra hluta vegna að fólk þekki réttindi sín. Það væri gott aðhald fyrir lífeyrissjóðina, fyrir stjórnmálamenn og mundi örugglega gera það að verkum að umræðan í þjóðfélaginu, m.a. um lífeyrismál, yrði bæði upplýstari og málefnalegri. Á því er enginn vafi í mínum huga.

Hv. þingmaður sagði að sú staða væri komin upp að lífeyrissjóðirnir hefðu ekki möguleika á að fjárfesta og nefndi bankabækurnar. Þar eru fjármunir með neikvæðum vöxtum. Ég vil upplýsa hv. þingmann hvað þetta er há upphæð vegna þess að ég spurðist fyrir um það um daginn. Hún er að nálgast 200 milljarða. Nú kynni einhver að segja: Það eru engin fjárfestingartækifæri á Íslandi. Það eru arðbær orkuverkefni og annað slíkt sem lífeyrissjóðirnir mega ekki fjárfesta í en ætti að vera góð sátt um að þeir mundu fjárfesta í svo að eitt dæmi sé nefnt. Þetta er að verða svo margháttað vandamál. Síðan fengu menn þá hugmynd að taka örlítið brot af eignum lífeyrissjóðanna, nokkra tugi milljarða í það heila, og fjárfesta á íslenskum samkeppnismarkaði. Sú skekkja er svaðaleg og mun valda miklum skaða. Hvernig er hægt að keppa við fyrirtæki í eigu lífeyrissjóða og hvað er réttlátt við það að fólk borgi í lífeyrissjóð til að (Forseti hringir.) gera sjálfu sér erfitt fyrir ef það er í samkeppni við lífeyrissjóðina?