140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[20:45]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka svörin en hv. þingmaður fór ekki inn á það sem ég nefndi til dæmis um SPRON, verðmætið sem var fólgið í rekstrinum og sem ríkisstjórnin í klaufaskap sínum eyðilagði aftur og aftur, hvern sparisjóðinn á fætur öðrum. Sparisjóðirnir geta verið mjög illa settir en kröfuhafarnir voru yfirleitt tilbúnir til að slá mikið af kröfum sínum til að bjarga rekstrinum því að þá var þó eitthvert verðmæti eftir. Sparisjóðirnir fengu ár eftir ár þá einkunn í skoðanakönnunum að þeir væru vinsælastir allra fjármálastofnana.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann um annað. Eftir breytingu á frumvarpinu er gert ráð fyrir því að skattur á laun, tryggingagjaldið, fari niður í 7,7%, það er lækkað og það er náttúrlega vel, en svo er bætt við 10,5% tryggingagjaldi samkvæmt þessum breytingum og það þýðir 18,8% tryggingagjald eða kostnað á laun. Sér hv. þingmaður fyrir sér að hægt sé yfirleitt að reka fyrirtæki sem þarf að borga svona mikinn skatt á laun? Er þetta ekki í rauninni aukaskattlagning á atvinnu í landinu og sérstaklega úti á landi þar sem þetta mun hrekja fólk úr vinnu, minnka atvinnu í landinu enn frekar en orðið er? Ég vil spyrja hann hvort ekki sé slæmt fyrir ríkissjóð ef fólkið fer úr störfum sem til dæmis sparisjóðirnir borga og fer svo á atvinnuleysisbætur sem ríkið borgar.