140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[22:56]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að gera smáathugasemd við ræðu hv. þm. Illuga Gunnarssonar, sem er reyndar sjaldgæft að ég geri. Hv. þingmaður vitnaði réttilega í bandorminn sem svo er nefndur, og hefur verið í gegnum tíðina. Það er mín skoðun að það sé ekki réttnefni á skattafrumvörpum ríkisstjórnarinnar, þetta eru í raun kyrkislöngur en ekki bandormar. Það er eins gott að halda því til haga, það er verið að kyrkja allt hérna; fjárhagur heimila eða atvinnulífs, það gengur allt út á að setja alla hluti í frost.

Ég vil byrja á því að vekja sérstaka athygli á texta í frumvarpinu sem hæstv. fjármálaráðherra mælti fyrir. Þar segir, með leyfi forseta:

„Loks er viðbúið að fjársýsluskattur hafi áhrif á þróun atvinnugreinarinnar í heild. Auknar álögur af þessu tagi færa rekstrarumhverfi fyrirtækja í fjármála- og vátryggingastarfsemi nær því sem aðrar greinar atvinnulífsins búa við og eru til þess fallnar að draga úr launahækkunum og halda aftur af nýráðningum.“

Þetta er nokkuð merkilegur texti. Við stjórnarþingmenn höfum einmitt margir hverjir haldið því fram að afleiðingarnar yrðu þær að halda aftur af nýráðningum og draga úr launahækkunum. Hvað þýðir það? Það þýðir að ráðstöfunartekjur heimilanna lækka og atvinnuleysi eykst. Það er markmiðið með þessum lögum, sem er texti skrifaður af hæstv. fjármálaráðherra, að færa starfsemi viðkomandi fyrirtækja, sem þessi skattur á að falla á, nær því sem gerist á hinum almenna vinnumarkaði. Markmiðið er þá alveg skýrt, varla þarf að deila um það, og í þessum texta felst ákveðin viðurkenning á því sem hv. þingmenn stjórnarliðsins hafa hingað til ekki viljað viðurkenna. Ég verð að vekja sérstaklega athygli á þessu. Markmiðið er alveg skýrt: Lækka laun og fækka störfum. Þetta er skrifað í fjármálaráðuneytinu sjálfu. Þetta er ekki skrifað af stjórnarandstæðingi, þetta er skrifað í fjármálaráðuneytinu sjálfu. Mér finnst það alveg skýrt hvernig þetta kemur fram með markmið laganna, að lækka ráðstöfunartekjur heimila og fækka störfum. Þetta er nokkuð merkilegur texti í frumvarpinu.

Þá vil ég koma aðeins að því sem kemur fram í nefndarálitum. Það hefur valdið mér miklum vonbrigðum hvernig afgreiðsla margra mála er hér á þingi. Það er mjög dapurlegt að lesa það trekk í trekk að mál séu unnin á þann veg að mönnum gefist ekki tími til að meta þær breytingar sem gerðar eru á frumvörpum. Þegar frumvarp hefur verið lagt fram er það sent til umsagnar og þegar umsagnirnar berast reyna menn að sníða mestu agnúana af og alltaf er af nógu að taka. En þegar það er búið gefst ekki tími til að senda frumvarpið aftur til umsagnar og vita hvaða áhrif breytingarnar hafa. Verið er að gera mjög margar breytingar á þessu frumvarpi og ekki gefst tími til að gera þetta. Ég deili á þau vinnubrögð sem viðhöfð eru við lagasetningu á Alþingi; þetta er mjög dapurlegt.

Þetta minnir mann á mörg önnur mál sem fara í gegnum þingið þar sem það er aldrei skoðað til enda hvaða áhrif lagasetningin mun hafa. Hægt er að nefna mýmörg dæmi í því efni. Ég vil nefna stjórnarráðsfrumvarpið sem var afgreitt með miklum bægslagangi á septemberþinginu. Þá var ekki hægt að svara til um það hvað það þýddi í útgjöldum fyrir ríkið og hver væri tilgangurinn með heimild til að fjölga aðstoðarmönnum ráðherra. Ég hafði margoft á orði að óviðunandi væri að menn gætu ekki gert sér grein fyrir því hvað sú lagasetning þýddi í útgjaldaauka fyrir ríkið. Það var aldrei hægt að fá svör við því. Frumvarpið var samþykkt en örfáum dögum eða vikum seinna kom í ljós að kostnaðurinn við að fjölga aðstoðarmönnum var 40 milljónir. Því miður sýnist mér að sömu vinnubrögð séu áfram viðhöfð í þessu máli.

Við getum líka rætt um niðurskurð í heilbrigðismálum í þessu samhengi. Ég fór til að mynda yfir þessa hluti í fyrirspurn í dag hvað varðar ákveðna heilbrigðisstofnun. Á Heilbrigðisstofnun Vesturlands liggur fyrir að segja þarf upp 35 konum. Þær eru bara reknar á dyr, þær hafa nánast enga möguleika til að fá sambærilegt starf og fara því beint á atvinnuleysisbætur, sérmenntaðir hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar sem hafa annast um fólk á öldrunar- og endurhæfingardeildum. Það er ekkert skoðað hvaða áhrif þetta hefur. Þessar konur sem reknar eru á dyr fara beint á atvinnuleysisbætur; og hver er munurinn? Hver skyldu meðallaun þessar kvenna vera? Þau eru innan við 300 þús. kr. en atvinnuleysisbætur eru 180 þús. kr. — og sjúklingarnir hverfa ekki. Það er alltaf verið að grípa til aðgerða án þess að menn skoði hlutina til enda. Stærsta einstaka breytingin á Heilbrigðisstofnun Vesturlands er lokun öldrunar- og endurhæfingardeildar á Akranesi, þar starfa 28 manns af þeim 35 sem þarf að segja upp.

Á sama tíma hefur verið niðurskurður á Dvalarheimilinu Höfða og biðlistinn hefur lengst í þann endann og líka í Borgarnesi sem er næsta sveitarfélag. Menn vita ekki hvað verður um fólkið því að engum verður hent út. Ég er ekki að halda því fram að heilbrigðisyfirvöld setji fólk út á götu en það er ekki skoðað til enda hvað verið er að gera. Menn kasta fram einhverjum breytingum, reyna að lappa upp á frumvarpið og síðan gefst ekki tími til að fara yfir það. Það er mjög slæmt. Það er mjög óþægilegt að setja nefndir þingsins í þá stöðu. Hægt er að nefna mýmörg dæmi í þessa veru og þetta eru hlutir sem við verðum að fara að breyta í lagasetningu á þinginu.

Margoft í þessari umræðu hafa komið fram áhyggjur af sparisjóðunum úti á landsbyggðinni, þ.e. að þeim verði lokað. Að fjársýsluskatturinn muni hafa þau áhrif að starfsstöðvum úti á landsbyggðinni, litlum sparisjóðum, verði lokað; þetta er hreint með ólíkindum.

Það kemur skýrt fram að markmið laganna er að lækka laun og fækka störfum, eins og ég gat um. Það segir hæstv. ríkisstjórn, eða fjármálaráðuneytið, að sé gert til að færa rekstrarumhverfi fyrirtækja í fjármála- og vátryggingastarfsemi nær því sem aðrar greinar atvinnulífsins búa við. Það er ótrúlegt að þetta skuli standa þannig í textanum en þetta er auðvitað sannleikurinn. Það felst þó ákveðin viðurkenning í þessu þó að hv. þingmenn stjórnarliðsins hafi ekki fengist til að viðurkenna þetta enn þá. Síðan má endalaust ræða hvaða áhrif þetta hefur á hag heimila því að þessi skattur mun ekki koma upp úr einhverjum skúffum eða detta af himnum ofan, honum verður dembt á viðskiptavini þeirra fjármálastofnana sem í hlut eiga, hvort heldur það eru fyrirtæki eða einstaklingar. Viðskiptavinirnir munu þurfa að bera þennan kostnað með einum eða öðrum hætti, hvort heldur sem menn hækka vexti á lánum til atvinnulífsins og heimilanna ellegar á þann veg að vaxtamunur milli Seðlabankans og fjármálafyrirtækjanna til innstæðueigenda mun aukast. Á endanum mun þetta lenda á viðskiptavinum bankanna sem eru heimilin og fyrirtækin í landinu; alltaf er hoggið í sama knérunn og fyrir löngu orðið tímabært að hætta þessari vitleysu.