140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[23:31]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni fyrir prýðilega ræðu. Það er augljóst hvar hjarta hans slær, það slær með hinum dreifðu byggðum Íslands. Þar þekkir hann vel til og honum var eðli málsins samkvæmt tíðrætt um stöðu sparisjóðanna.

Ég sit í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og ég get alveg sagt það að ég spurði fulltrúa sparisjóðanna beint um hvaða áhrif frumvarpið hefði á sparisjóðina. Svarið var mjög skýrt, þeir mundu ekki þola þennan skatt, sparisjóðirnir mundu ekki þola þennan skatt.

Nú hefur að vísu verið komið til móts við þessi sjónarmið, ef þannig má að orði komast, þannig að þetta er ekki jafnsvaðalegt og var í upphafi hvað varðar minni fjármálastofnanir. Launaskatturinn er núna 5,45% að því gefnu að ekki sé um hagnað að ræða. Ef um hagnað er að ræða verður hann 6,71% sem er ekki langt frá þeim 10,5% skatti sem lagt var upp með. En það er alveg ljóst að þetta mun hafa gríðarlega alvarleg áhrif á sparisjóði og minni fjármálastofnanir og þegar maður sér þessi vinnubrögð, eins og hv. þingmaður vísaði til, virðast menn vera á handahlaupum við að koma fram með nýja skatta. Í þessu tilfelli var sagt að þetta væri að danskri fyrirmynd en menn þurfa ekki mikið til að sjá að þetta er ekki dönsk fyrirmynd, þótt þar sé launaskattur er framkvæmd hans allt öðruvísi. Og embættismaður sem kom fyrir nefndina sagði að hann mundi aldrei treysta þessari handbók aftur.

Af því að hv. þingmaður þekkir aðeins til (Forseti hringir.) í þessum flokki vildi ég spyrja: Af hverju eru slík handarbakavinnubrögð alltaf hjá Vinstri grænum? Af hverju vanda menn sig aldrei og vinna faglega?