140. löggjafarþing — 38. fundur,  17. des. 2011.

veiting ríkisborgararéttar.

397. mál
[00:43]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um veitingu ríkisborgararéttar til samræmis við 6. gr. laga nr. 100/1952, um íslenskan ríkisborgararétt, þar sem kveðið er á um að Alþingi veiti ríkisborgararétt með lögum.

Hv. allsherjar- og menntamálanefnd tók að þessu sinni á móti 42 umsóknum um ríkisborgararétt frá einstaklingum sem ekki uppfylltu skilyrði, eitt eða fleiri, um að fá ríkisborgararétt í gegnum stjórnvaldsákvörðun innanríkisráðuneytis en þau skilyrði eru útlistuð í 8.–10. gr. fyrrnefndra laga.

Undirnefnd allsherjar- og menntamálanefndar fór vandlega í gegnum þessar umsóknir að fengnum umsögnum ríkislögreglustjóra og Útlendingastofnunar, og leggur fram í því frumvarpi sem hér er til umræðu tillögu um 24 aðila sem lagt er til að hljóti nú íslenskan ríkisborgararétt. Nöfn þessara einstaklinga, fæðingarár og fæðingarstaður koma fram á meðfylgjandi þingskjali. Þar má sjá að viðkomandi aðilar koma víða að, frá Evrópu, Ameríku, Asíu og Afríku.

Ég vil nota þetta tækifæri og vekja máls á því að ég tel fullt tilefni til þess að taka lögin um íslenskan ríkisborgararétt til heildarendurskoðunar. Þar vil ég vísa sérstaklega í þau ákvæði sem skilgreina þær kröfur sem umsækjendur þurfa að uppfylla til að hljóta ríkisborgararétt með stjórnvaldsákvörðun en þó sérstaklega gera að umtalsefni þau ákvæði 6. töluliðar 9. gr. laganna sem lúta að brotum og sektargreiðslum.

Ég tel það t.d. mikinn galla á núgildandi lögum að ekki er gerður greinarmunur á eðli þessara brota, þ.e. hvort er eingöngu um að ræða umferðarlagabrot eða önnur og alvarlegri brot sem lúta t.d. að ofbeldisverkum, brotum á fíkniefnalöggjöfinni eða brot sem falla undir fjármálamisferli, skjalafals o.s.frv.

Það er rétt og skylt að geta þess og sérstakt ánægjuefni að hæstv. innanríkisráðherra hefur lagt fram frumvarp á þessu þingi sem er sannarlega skref í rétta átt hvað varðar að auka sveigjanleika þeirra ákvæða 9. gr. sem fjalla um áhrif brota á stöðu umsækjenda um ríkisborgararétt. Þar er m.a. verið að rýmka reglur um áhrif mismunandi sektargreiðslna á biðtíma eftir ríkisborgararétti. Eftir stendur þó enn að í því frumvarpi er enginn greinarmunur gerður á eðli brota og kallar það á frekari endurskoðun að mínu mati.

Ég teldi á því góðan brag ef hv. allsherjar- og menntamálanefnd mundi á vorþingi skipa undirnefnd sem færi heildstætt yfir lögin og skoðaði hvernig mætti gera á þeim bragarbót til samræmis við þær auknu áherslur á mannréttindi sem góðu heilli hafa rutt sér til rúms á liðnum árum.

Ég vil að lokum árétta að hv. allsherjar- og menntamálanefnd stendur einhuga og sameinuð að þessu frumvarpi og var órofa samstaða um tillöguna sem hér er að finna um þá 24 einstaklinga sem lagt er til að öðlist íslenskan ríkisborgararétt.