140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

fólksflutningar og farmflutningar á landi.

192. mál
[11:13]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Mér finnst atkvæðaskýringarnar sýna svo ekki verður um villst að það þarf að fara betur yfir þetta mál. Hér er verið að samþykkja mál en segja svo í leiðinni að það eigi að endurskoða lög um almenningssamgöngur. Eftir að búið verður að samþykkja lögin á að setja á vinnuhóp til að skoða aðskilnað milli almenningssamgangna og ferðaleiða. Einhver hefði getað sagt: Borgar sig ekki að fara fyrst yfir málið og samþykkja síðan lögin en samþykkja ekki lögin fyrst og setja síðan þau álitaefni sem uppi eru í skoðun?

Virðulegi forseti. Af því að hæstv. iðnaðarráðherra fór yfir ákveðin álitamál skal það upplýst að í umræðunni í gær var talað mjög skýrt um það sem snýr að þessari flugrútu. Hún verður ekki í neinni samkeppni ef þetta verður samþykkt, hún er með þessa þjónustu núna. Það kom mjög skýrt fram í umræðunni af hálfu hæstv. ráðherra og þeirra hv. stjórnarþingmanna sem töluðu þannig. Menn skulu vera alveg meðvitaðir um að verið er að breyta því fyrirkomulagi með því að samþykkja þessi lög.

(Forseti (ÁRJ): Forseti hvetur enn hv. þingmenn til að gera grein fyrir atkvæði sínu þegar það á við og tala um atkvæðagreiðsluna þegar það á við. Ýmsar af þessum atkvæðaskýringum hefðu átt heima undir atkvæðagreiðslu um 1. gr.)