140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

Landsvirkjun o.fl.

318. mál
[11:52]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Eins og fram kom í ræðu hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar áðan er þetta frumvarp að hluta til ágætislagfæringar. Það er þó með þeim hætti að í fyrra, á sama tíma með mjög stuttum fyrirvara, komu ábendingar frá Orkuveitunni sérstaklega um að lagfæra þyrfti lögin. Það var gert á mjög stuttum tíma. Svo kom í ljós að þær lagfæringar reyndust ekki réttar og nú er verið að laga þær enn og aftur. Þessi vinnubrögð ganga ekki á þinginu. Við megum ekki hlaupa eftir tillögum hagsmunaaðila daginn út og daginn inn. Við þurfum meiri tíma til að fara yfir málin og vanda vinnubrögðin. Hluti af þessu frumvarpi er þess vegna jákvæður og ég mun styðja hann, en um uppskiptingu Orkuveitunnar er það að segja að ekkert fyrirtæki í landinu hefur þurft að framfylgja þeirri Evróputilskipun sem við erum hér að framfylgja vegna þess að hún miðast við 100 þúsund notendur. Það merkilega er að Orkuveitan verður eina fyrirtækið sem þyrfti að fara þá leið, en hér er í fjórða sinn óskað eftir (Forseti hringir.) frestun á því. Þetta hefur ekki skilað almenningi í landinu neinum bótum. Orkuverð hefur heldur hækkað ef eitthvað er.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir hv. þingmenn á að beina máli sínu til forseta.)