140. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

381. mál
[16:59]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er eins gott að fara í atkvæðaskýringu í réttu máli. (Gripið fram í: Já.) (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Hafði hv. þingmaður óskað eftir að koma í atkvæðaskýringu?)

Atkvæðaskýring.

(Forseti (ÁRJ): Það var betra. Hv. þingmaður bað um orðið. Forseti taldi að enginn hefði kvatt sér hljóðs en nú hefst atkvæðagreiðslan og hv. þingmaður tekur til máls um hana.)

Um atkvæðagreiðsluna. (Gripið fram í: Um atkvæðagreiðsluna.) [Hlátur í þingsal.]

Virðulegi forseti. Það eru fleiri en ég sem þarf að fylgjast með en þetta er sem sagt atkvæðaskýring.

Þetta mál var sent inn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á milli 2. og 3. umr. vegna þeirrar kröfu hv. þm. Þórs Saaris og hv. þm. Þráins Bertelssonar að ákvæði frumvarpsins yrði einungis framlengt til 1. mars 2012. Það hefur ekki orðið vegna þess að þetta mál var tekið á dagskrá í nefndinni og það var orðið það breytt eftir atkvæðagreiðslu við 2. umr. Hér erum við að upplifa að það skilyrði sem þessir tveir hv. þingmenn gerðu á sinni tíð þegar lög um Stjórnarráð Íslands voru samþykkt er fokið út í veður og vind því að hljóðritanir á ríkisstjórnarfundum eiga að fara fram í fyrsta lagi 1. nóvember 2012. Svona gerast kaupin á eyrinni, frú forseti, þannig að samkomulag sem er af og til gert í atkvæðagreiðslum til að liðka fyrir þingstörfum og ná meiri hluta í málum hjá þessari verklausu ríkisstjórn fellur um sjálft sig. [Hlátur í þingsal.]

Ég sit hjá í þessu máli.