140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

fjárframlög til veiða á ref og mink.

151. mál
[18:32]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir þessa fyrirspurn sem ég tel mjög mikilvæga. Ég hnaut um orðalag hæstv. umhverfisráðherra þegar hún lýsti því að þetta hreyfði við tilfinningum fólks. Ég held að það sé rétt en um það snýst ekki málið, að mínu mati. Þetta snýst um hagsmuni. Þetta snýst um gríðarlega hagsmuni fyrir smærri sveitarfélög hringinn í kringum landið. Þetta skerðir atvinnumöguleika fólks, sérstaklega bænda eðli málsins samkvæmt, sem missa tekjur einfaldlega vegna þess að fjármunum er ekki varið í veiði á ref. Svo skerðir þetta líka umhverfið. Tökum til að mynda Mývatn sem dæmi, þar er eitt fjölskrúðugasta fuglalíf í heimi, ætla ég að leyfa mér að fullyrða, og hvergi annars staðar finnast fleiri andategundir en þar. Þar hafa heimamenn gríðarlega miklar áhyggjur af þessu. (Forseti hringir.) Mér þykir leitt, virðulegi forseti, að ríkisstjórnin skuli ekki sýna þessu verkefni meiri áhuga og að ekki skuli hafa verið settir (Forseti hringir.) fjármunir í þetta í síðustu fjárlögum.