140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

Náttúrufræðistofa Kópavogs.

327. mál
[18:55]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég ber upp eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra, með leyfi forseta:

„Hyggst ráðherra gera samning við Kópavogsbæ um rekstur Náttúrufræðistofu Kópavogs samkvæmt 9. og 10. gr. laga um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992?“

Ég spyr vegna þess að nú þegar hafa verið gerðir samningar við sex aðrar náttúrufræðistofur. Engar af þeim eru á suðvesturhorninu. Þær eru allar á landsbyggðinni.

Ég vil líka vitna í 9. gr. þar sem segir að ráðherra sé heimilt að leyfa starfrækslu allt að átta náttúrurfræðistofa. Það er sem sagt heimild í lögunum til þess að starfrækja átta náttúrufræðistofur með stuðningi ríkisins og þær starfa á vegum sveitarfélaga óháð kjördæmaskipan og skal um hverja stofu gera samning milli ráðherra og þeirra sveitarfélaga sem standa að náttúrustofu.

Nú er ljóst að mjög mikilvægt og merkt starf er innt af hendi á náttúrufræðistofum víða um land. Eins og ég gat um eru sex núna styrktar af sveitarfélögum og ríki.

Einhverra hluta vegna hefur Náttúrufræðistofa Kópavogs ekki hlotið náð fyrir augum ráðuneytisins í mörg ár. Ég vil geta þess að Náttúrufræðistofa Kópavogs hóf starfsemi sína, að mig minnir, 1983 og var ætlunin og hefur verið alla tíð síðan að standa að fræðslu og rannsóknum í náttúrufræðum og stuðla að náttúru- og umhverfisvernd sem og að varðveita ákveðna náttúrugripi. Þarna er ákveðið sambland af safnastarfsemi og rannsóknarstarfsemi og mjög merkilegt starf unnið, ekki síst í rannsóknum, af starfsmönnum náttúrufræðistofunnar. Vatnaverkefnið er kannski einna helst það sem menn þekkja. Vatnaverkefnið er, eins og segir á vef Náttúrufræðistofu Kópavogs:

„„Yfirlitskönnun á lífríki íslenskra vatna: samræmdur gagnagrunnur“ […] er eitt viðamesta verkefni náttúrufræðistofunnar. Það hófst árið 1992 og er samstarfsverkefni fjögurra stofnana sem eru auk náttúrufræðistofunnar, Líffræðistofnun Háskóla Íslands, Hólaskóli í Hjaltadal og Veiðimálastofnun.“

Ég veit að það er í bígerð og hefur komið fram við umræðu um fjárlög að gera samning við sjöundu stofuna sem er þá væntanlega á Suðausturlandi í kringum Vatnajökul. Ég vil spyrja ráðherra hvort hún sjái ekki rök fyrir því að gera viðlíka samning við Náttúrufræðistofu Kópavogs því að hún sinnir ekki minna merkilegu starfi en þessar annars ágætu náttúrufræðistofur víða um land.