140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

þátttaka Íslendinga á Ólympíuleikunum.

283. mál
[19:16]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim sem hafa tekið þátt í þessari umræðu og ég þakka svör hæstv. menntamálaráðherra.

Hún kom aðeins inn á að fleiri verkefni væru tengd Ólympíuleikum eins og vetrarólympíuleikar ungmenna sem haldnir verða í Insbrück í Austurríki á þessu ári. Þá verða vetrarleikar Ólympíuhátíðar Evrópuæskunnar haldnir í Brasov í Rúmeníu í ársbyrjun 2013. Þetta eru allt hlutir sem við verðum að horfa til.

Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir minntist á samninga sem hafa verið gerðir. Allir þessir samningar, ég held að ég fari rétt með það, eru lausir. Afrekssjóðurinn, ferðasjóðurinn, slysabótasjóðurinn og ríkisstyrkur til sérsambandanna, allt er laust og hefur verið laust undanfarin ár og það þarf að klára þessa samninga. Ég hvet hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra til að gera það hið allra fyrsta. Við verðum að hafa það í huga, eins og ég kom inn á áðan, að fólk sem tekur þátt í Ólympíuleikunum er andlit Íslendinga út á við og ber hróður Íslendinga sem öflugrar þjóðar þrátt fyrir fámenni hvað íþróttir snertir. Ef eitthvað sameinar þjóðina þegar vel gengur eru það einmitt íþróttaliðin okkar og einstakir íþróttamenn sem ná góðum árangri.

Við verðum samt að viðurkenna, og það vil ég kannski fá aðeins skýrar hjá hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, að það hefur ekki verið staðið nægilega vel við afreksíþróttafólk á undanförnum árum, því miður. Þetta er ekki fólk sem kvartar og ber vandræði sín á torg en við höfum horft upp á það núna trekk í trekk að það er víða pottur brotinn í þessum málum og það verður að laga og það snertir þá Ólympíuleika sem fram undan eru í sumar.