140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[14:58]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta velfn. (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti 2. minni hluta velferðarnefndar um tillögu til þingsályktunar um staðgöngumæðrun.

Með tillögunni er lagt til að velferðarráðherra verði falið að skipa starfshóp sem undirbúi frumvarp til laga sem heimili staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni sem lagt verði fyrir Alþingi svo fljótt sem verða má. Tillagan var fyrst flutt á síðasta þingi en er nú endurflutt nokkuð breytt.

Á síðasta þingi var mikill meiri hluti umsagnaraðila á móti því að staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni yrði heimiluð eða taldi það ekki tímabært. Sama gildir um þessa tillögu þrátt fyrir breytingar til batnaðar en 10 af 13 umsagnaraðilum voru á því máli. Aðrir umsagnaraðilar veltu flestir upp erfiðum siðferðislegum spurningum og tóku almennt ekki beina afstöðu með málinu.

Meiri hluti velferðarnefndar tiltekur 14 mikilvæg atriði sem kanna þurfi hvernig eigi að fara með við samningu frumvarps. Ýmsar siðferðislegar og lagalegar spurningar vöknuðu einnig um íslenska löggjöf um móður- og föðurhugtakið, ættleiðingar, réttindi samkynhneigðra með tilliti til réttinda gagnkynhneigðra, feðrun óskilgetinna barna, rétt barna til að þekkja uppruna sinn, eggjagjöf, sæðisgjöf og tæknifrjóvgun.

Annar minni hluti telur mikilvægt að allt þetta verði skoðað mjög vel. Jafnframt telur 2. minni hluti mikilvægt að samhliða verði skoðað hvort rétt sé að formfesta enn frekar bann við staðgöngumæðrun og lögleiða viðurlög við því þegar það bann er brotið, þá sérstaklega staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni. Ekki sé nóg að huga einungis að því hvernig sé hægt að heimila staðgöngumæðrun líkt og lagt er til í tillögunni. 2. minni hluti tekur jafnframt undir þá varnagla sem koma fram í nefndaráliti meiri hlutans og 1. minni hluta en leggur áherslu á að málið verði unnið frekar áður en ákvörðun verði tekin um að fela velferðarráðherra smíði frumvarps sem heimili staðgöngumæðrun.

Eins og kom fram í máli hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur, flutningsmanns 1. minni hluta, hefur verið lögð fram breytingartillaga við tillögu til þingsályktunar. Í þeirri tillögu er lagt til að í stað orðanna „undirbúi frumvarp til laga sem heimili staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni“ komi: verði falið að skoða álitamál um staðgöngumæðrun.

Við bætist einnig ný málsgrein sem orðist svo, með leyfi forseta:

„Hópurinn hafi m.a. hliðsjón af niðurstöðum vinnuhóps fyrrverandi heilbrigðisráðherra sem skilaði áfangaskýrslu um siðferðileg, læknisfræðileg og lögfræðileg álitaefni tengd staðgöngumæðrun. Starfshópurinn skili niðurstöðum til velferðarráðherra sem flytji Alþingi skýrslu um málið að því loknu.“

Þegar hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir leitaði stuðnings við tillögu sína þegar hún lagði hana fyrst fram velti ég fyrir mér hvort ég ætti að gerast flutningsmaður eða ekki. Eins og kom fram í máli hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur hafði ég ekki mótað mér afstöðu til staðgöngumæðrunar. Ég tók þá ákvörðun í ljósi þess að ég taldi ekki tímabært fyrir mig að taka afstöðu til staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni eða hagnaðarskyni, bara almennt til hugtaksins staðgöngumæðrunar, valdi ég að vera ekki flutningsmaður að málinu og hef ekki verið flutningsmaður að því. Eftir vandlega íhugun hef ég komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé tímabært að fara í það verklag sem hv. þingmaður leggur til, þ.e. að unnið verði frumvarp og það lagt fyrir Alþingi af velferðarráðherra.

Að sjálfsögðu er hverjum og einum þingmanni frjálst að vinna sitt eigið frumvarp og koma með það í þingið og vinna því framgang í gegnum þingið. Ég treysti fáum betur en einmitt hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur til að vinna mjög kröftuglega að því að koma slíku máli í gegnum þingið. En ég tel að ekki sé tímabært að Alþingi álykti að velferðarráðherra eigi að leggja fram frumvarp þessa efnis.

Það var einkar áhugavert að kynna sér umræður og skýrslu sem hefur verið unnin í Noregi sem meira sneri beint að skilgreiningu og lögum varðandi það hvað er að vera faðir og hvað er að vera móðir. Það var eitt af því sem við snertum á í okkar vinnu. Samkvæmt lögum í Noregi og hér líka er skilgreiningin á móður sú kona sem fæðir barn. Það er ekki talað um hvort viðkomandi kona eigi eggið eða ekki, ekki er hægt að nota orðið blóðtengsl því að þau eru að sjálfsögðu til staðar ef kona fæðir barn. Þetta snertir erfðafræðileg eða genetísk tengsl.

Það sama gildir síðan um föðurinn. Það er ekki þannig að faðir sé sá sem raunverulega gefur sæði. Samkvæmt íslenskum lögum er faðir skilgreindur sem sá sem er í sambandi eða hjónabandi með viðkomandi konu. Síðan er náttúrlega aðeins útfærsla á því hvernig við höfum verið að koma til móts við og tryggja aukin mannréttindi samkynhneigðra.

Ég mundi gjarnan vilja sjá, þó það komi kannski ekki beint fram í þessari breytingartillögu, að við mundum fara í sambærilega vinnu og gert er í Noregi, að skoða þetta víðtækar en aðeins þessa tæknilegu útfærslu eða hvernig barn verður til með staðgöngumæðrun, og við veltum fyrir okkur þeim álitamálum sem ég nefni hér: Hvernig viljum við hafa íslenska löggjöf um móður- og föðurhlutverkið? Er ástæða til að breyta henni að einhverju leyti? Er rétt að tala um að það séu að einhverju leyti réttindi kvenna sem geta ekki eignast börn af heilsufarsástæðum að eiga rétt á staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni? Við teljum að mjög mikilvægt sé að samkynhneigðir njóti sambærilegra réttinda í samfélagi okkar. Nú er það þannig að vegna þess að konur hafa líffærin til þess að ganga með barn geta konur, lesbískar konur, eignast börn, meðan samkynhneigðir karlmenn hafa ekki þá sömu möguleika. Það er eitt af því sem ég teldi vera mikilvægt að við mundum velta fyrir okkur.

Síðan var líka komið inn á feðrun óskilgetinna barna. Það tengist aftur þeim vangaveltum um móður- og föðurhlutverkið. Skiptar skoðanir voru innan nefndarinnar á mikilvægi þess að börn þekki uppruna sinn. Ég held að reynsla okkar af almennum ættleiðingum undanfarin ár hafi sýnt fram á að mjög mikilvægt sé fyrir börn að þekkja uppruna sinn. Viðhorfið til þess hefur breyst mikið. Það væri eitt af því sem þyrfti að velta virkilega vel fyrir sér.

Síðan er það náttúrlega ákveðið mál sem við þurfum að íhuga vel, þ.e. hvernig fyrirkomulagið er hér á Íslandi varðandi tæknifrjóvgun, eggjagjöf og sæðisgjöf. Segja má að einokun sé á því sviði. Það er einn aðili sem sinnir því. Er það besta fyrirkomulagið fyrir samfélagið? Þetta eru meðal annars þær spurningar sem ég hef velt fyrir mér.

Ég held að ég hafi verið sá þingmaður sem hafi kannski einna helst velt fyrir sér spurningunni: Hvað svo? Ég er þeirrar skoðunar að það umhverfi sem við búum við núna sé ekki ásættanlegt. Við fengum að upplifa það mjög skýrt þegar við fengum umsókn inn á borð þingmanna með mjög skömmum fyrirvara þar sem sótt var um ríkisborgararétt fyrir lítið barn sem hafði fæðst á Indlandi með staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni. Ég tel að ekki sé tekið nægilega vel á slíkum málum í nefndaráliti meiri hlutans.

Eitt af því sem ég hef velt fyrir mér er hvort rétt sé að setja viðurlög. Ef meiri hluti verður fyrir því á þingi að heimila staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni verða að vera í þeim lagatexta mjög skýr ákvæði um að staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni sé ekki leyfileg og viðurlög séu við því ef brot verður uppvíst. Þá er ég ekki bara að tala um hér innan lands heldur líka ef menn fara til Indlands og kaupa sér barn. Ef foreldrar brjóta af sér refsum við ekki barninu en foreldrar þurfa að axla ábyrgð á sínum eigin gjörðum. Á Litla-Hrauni og í Kvennafangelsinu situr inni fólk sem á börn. Ég held því að mikilvægt sé að ef við teljum rétt, eins og lagt er til í þingsályktunartillögunni, að heimila staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni sé tekið mjög skýrt fram að staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni sé ekki leyfileg.

Ef við tökum ákvörðun um að leyfa almennt ekki staðgöngumæðrun þurfum við líka að taka á því hvernig við tryggjum það. Eigum við þá að setja hreinlega skýr lög um að það sé bannað, það komi fyrir í lagatexta að staðgöngumæðrun, hvort sem er í velgjörðarskyni eða hagnaðarskyni, sé bönnuð á Íslandi. Þeir sem brjóta þau lög þurfi þá að sæta refsingu.

Þetta eru spurningar sem ég mundi gjarnan vilja sjá að sá hópur sem hér er lagt til að taki til starfa mundi leita svara við og komi með tillögur hvað það varðar og við mundum síðan halda áfram umræðu á Alþingi.