140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[15:16]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta velfn. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Skýrslan sem ég vísaði til, þar var ekki verið að tala beint um staðgöngumæðrun, það var í raun eitt af þeim álitamálum sem voru rædd í þeirri skýrslu. Skýrslan fjallaði um skilgreiningar og notkun á hugtökunum móðir og faðir í norskri löggjöf, þar á meðal var náttúrlega komið inn á eggjagjöf og staðgöngumæðrun. Eitt af því sem var rætt var sá vandi sem norsk yfirvöld eru líka að fást við, þ.e. þegar foreldrar hafa eignast börn með aðstoð erlendra staðgöngumæðra, hvernig hægt væri að taka á því. Nefndin þar talaði um að setja þyrfti upp einhvers konar ættleiðingarfyrirkomulag til að tryggja réttindi barnsins sem best. Það þyrfti einhvern veginn að taka á þeim vanda þótt greinilega væri ekki vilji fyrir því að leyfa staðgöngumæðrun í Noregi í velgjörðarskyni. Þá var hugmyndin sú hvort hægt væri að búa til einhvers konar styttra ferli, svo ég muni nú rétt, fyrir ættleiðingar hvað þau börn varðar. Talað var um að mjög mikilvægt væri að tryggja að það yrði gert lögformlega þannig að foreldrarétturinn, móður- og föðurrétturinn, færðist ekki sjálfkrafa heldur yrði að fara í gegnum þetta löglega ferli.

Ég vil ítreka það sem ég sagði að ég mundi vilja sjá úr svona vinnu möguleikana á því að hugsanlega kæmi fram frumvarp sem leyfði staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Það gæti líka mögulega komið fram frumvarp um tillögu um að leyfa staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni. Síðan væri þriðji möguleikinn sem ég talaði um, þ.e. að banna hreinlega báða þessa möguleika. Og þó að bent væri á að það kæmi fram í lagatexta, gerum við okkur líka, (Forseti hringir.) ég og hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir, grein fyrir því að engin viðurlög eru við þessu eins og er. Þetta er vandi sem við þurfum einhvern veginn að takast á við. Þetta er ein af leiðunum sem (Forseti hringir.) ég mundi vilja hafa uppi á borðinu, hreinlega að banna þetta og setja skýr viðurlög við því.