140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[15:22]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, við erum reyndar sammála um það, ég og hv. þingmaður, að það er ýmislegt í heilbrigðislöggjöfinni sem er ástæða til að skoða. Hins vegar deili ég ekki þeim ríka ótta sem þingmaðurinn hefur varðandi staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni að því uppfylltu að fólk vandi sig í þessari vinnu og stígi hvert skref gaumgæfilega og taki tillit til þeirra siðferðilegu álitamála sem hér hafa risið.

Í ljósi þess hvernig þingmaðurinn lýsir afstöðu sinni er ég samt svolítið ráðvillt. Þingmaðurinn sagði að hún teldi málið í rauninni ekki tímabært. Það má vel vera að við séum ekki tilbúin til að taka mál sem þetta og afgreiða það. Þá velti ég líka fyrir mér þeirri breytingartillögu sem þingmaðurinn er aðili að sem gerir ráð fyrir að skipaður verði enn einn starfshópurinn til að taka afstöðu til álitamála um staðgöngumæðrun. Nú var hópur af þessu tagi skipaður og hefur lokið störfum, lauk störfum 2010. Væri þá ekki hreinlegra að segja: Við skulum bíða með þetta mál og leggja til að það verði látið niður falla?

Ég sé ekki alveg hvaða vinna það er sem þingmaðurinn telur að eigi eftir að vinna áður en hægt er að taka ákvörðun um að farið verði í smíði frumvarps að teknu tilliti til ákveðinna álitamála. Hvaða vinnu er enn þá ólokið áður en hægt er að taka afstöðu til málsins? Er málið þá ekki einfaldlega miklu frekar þannig að fólk er bara ekki tilbúið til að fara í þessa umræðu og leiða hana til lykta? Væri þá ekki nær að viðurkenna það heldur en leggja til enn einn starfshópinn til að drepa málinu á dreif?