140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[15:24]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta velfn. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í nefndaráliti mínu koma ýmis álitamál fram sem ég mundi vilja að þessi starfshópur mundi skoða því að ég tel að ekki hafi komið nægilega skýr svör fram við þeim enn sem komið er.

Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir fór líka í gegnum fjölda atriða í nefndaráliti sínu. Það sama má segja, ef maður lítur fram hjá því hversu mikill vilji virðist vera til að heimila staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni í nefndaráliti meiri hlutans, að þar séu líka mjög margar spurningar sem ástæða væri til fyrir þennan starfshóp að skoða og komast að ákveðinni niðurstöðu. Það væri líka mjög áhugavert að reyna að hafa sem mesta breidd í þeim starfshópi þannig að mismunandi álit kæmu fram sem þingmenn gætu þá tekið afstöðu til.

Ég frábið mér hins vegar að einhver hræðsla sé hvað þetta varðar heldur er það meira að ég hef verulegar efasemdir um að rétt sé að heimila staðgöngumæðrun, hvort sem er í velgjörðarskyni eða hagnaðarskyni. Ég mundi þar af leiðandi vilja fá að sjá niðurstöður þessa starfshóps til að gera mér betur grein fyrir því hvort efasemdir mínar séu þær réttu eða ekki. Það er mjög mikilvægt að þingmenn séu tilbúnir til að skoða þau gögn áfram þegar komin eru svör við þeim álitamálum sem nefnd voru hérna.

Ég held ég sé líka að leggja áherslu á að opna þetta, hafa þetta víðtækara, frekar en að einblína akkúrat á þetta fyrirkomulag, þ.e. staðgöngumæðrun, og benti þess vegna á þá vinnu sem fór fram í Noregi.

Ég held einnig að það hefði kannski að mörgu leyti verið gagnlegra fyrir samfélagið í heildina að við hefðum eytt sambærilegum tíma í þau álitamál sem hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir tók hér upp í ræðustól. Önnur atriði sem ég mundi gjarnan vilja ræða meira eru til dæmis ættleiðingar. Talað hefur verið um að ætlunin sé að koma með breytingar á löggjöf um ættleiðingar, hvernig við getum í auknum mæli — því að ég (Forseti hringir.) efast ekki um að fyrir hverja konu eða hvern þann sem á í erfiðleikum með að eignast barn er náttúrlega sorglegt að horfa upp á fóstureyðingartölur á Íslandi. (Forseti hringir.) Það er sorglegt að horfa upp á tíðni þungana hjá ungum stúlkum á Íslandi sem dæmi. Þetta er (Forseti hringir.) þáttur sem ég teldi að við ættum að ræða á mun víðtækari máta en akkúrat bara þetta fyrirkomulag.