140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[16:45]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það þarf ekki að koma neinum á óvart sem hlýddu á mál hv. þingmanns að ég er algerlega ósammála flestu því sem þarna kom fram, en öllum er frjálst að hafa sínar skoðanir.

Hv. þingmaður sagði að þetta stríddi gegn siðferðiskennd hennar og sneri að kjarna lífsins. Þar er ég sammála. Það verður ekki meiri kjarni lífsins en barneignir, um það getum við verið sammála.

Ég ætla að biðja hv. þingmann um að útskýra þetta aðeins fyrir mér; er hún að boða að hún vilji sjá breytingar til baka á lögum um tæknifrjóvgun, á lögum um gjafaegg og gjafasæði? Ég spyr hv. þingmann hreint út: Hvert er álit hennar á því að tvær konur í sambúð, í lesbísku sambandi, eignist barn með hjálp tæknifrjóvgunar? Stríðir það gegn siðferðiskennd hv. þingmanns? Oft og tíðum er þar um að ræða gjafasæði af óþekktum uppruna þar sem barnið fær ekki að vita um faðerni sitt. Hvar vill hv. þingmaður draga mörkin varðandi þessi siðferðislegu álitamál? Er það einungis þegar kemur að því að ganga með barnið eða ristir það dýpra?

Aðeins varðandi staðgöngumæðrun sem norm, sem nefnt hefur verið í umræðunni. Ég held að það verði aldrei þannig að staðgöngumæðrun verði norm, en hver er skoðun hv. þingmanns á ættleiðingum eða eggjagjöf? Gerðir eru samningar um ættleiðingar á milli fólks. (Forseti hringir.) Ég veit ekki hvort einhverjar greiðslur eru inntar af hendi. Boðar hv. þingmaður að það verði allt tekið til endurskoðunar?