140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[16:54]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum mál sem hefur verið rætt býsna mikið og er þekkt meðal okkar þingmanna. Málið er eðlilega viðkvæmt og snertir marga fleti. Það snertir að sjálfsögðu siðferðislega fleti, það snertir réttlætisþáttinn og maður horfir til þess hversu mikilvægt það er fyrir þá sem vilja eignast barn að geta gert það. Það er það sem er einna mikilvægast og skemmtilegast í lífinu, að fá lítið barn og sjá það vaxa og dafna.

Það er hins vegar mjög eðlilegt að í þessu máli séu slegnir ýmsir varnaglar. Ég tek því undir þær vangaveltur sem koma fram í nefndaráliti 2. minni hluta, Eyglóar Harðardóttur, um að vanda þurfi mjög til verka og að svara þurfi þeim siðferðislegu, lagalegu og í raun réttlætisspurningum sem kunna að vakna. Ég er samt sem áður þeirrar skoðunar að rétt sé að samþykkja grunninn sem er í upphaflegu tillögunni, þ.e. að sett verði af stað vinna sem feli í sér að skila frumvarpi til þingsins. Þar vil ég nefna hvort við eigum að beita okkur fyrir því að sá þingmannahópur sem nú situr á þingi verði sá hópur sem taka mun afstöðu til frumvarpsins á endanum, þ.e. að einhvern tíma á þessu ári — mögulega seint, við þurfum að meta hvaða tíma þarf til — verði skilað áliti til þingsins og við tökum afstöðu til þess. Það hefur óneitanlega átt sér stað mikil umræða og ég held að mjög margir þingmenn séu komnir með býsna góða yfirsýn og þekkingu á þessu máli.

Ég legg hins vegar mikla áherslu á að hvergi verði slakað á kröfum þegar frumvarpssmíð hefst eða vinnuhópur tekur til starfa. Ég segi það fyrir mitt leyti og vil taka það skýrt fram að ef ég hef einhvern minnsta grun um að í því frumvarpi kunni að vera svigrúm sem hægt sé að nýta á einhvern óheiðarlegan hátt, til mansals eða einhvers slíks, muni ég ekki styðja það frumvarp. En ég vil hins vegar sjá hvernig og hvort hægt er að leysa þau mál sem skoða þarf. Þar af leiðandi held ég að það sé betra að málið komist áfram og að því verði lokið fyrir næstu kosningar, hvort sem það verður samþykkt eða fellt eða hvort frumvarpið nær fram að ganga eða ekki.

Þetta er ekki mál sem ræðst af stefnumálum flokka, flokkslínum eða flokkssamþykktum. Þetta er ekki mál sem þingflokkar leggja línur í eða neitt slíkt. Þetta mál snertir þau sjónarmið og þá lífssýn sem hver þingmaður hefur. Það er þvert á flokka.

Ég held því að við eigum að taka málið á næsta stig, vinna það áfram og taka svo umræðuna í framhaldi í þinginu. Við getum að sjálfsögðu hvorki lofað því hér né gert okkur einhverjar hugmyndir um hvort það frumvarp sem ef til vill verður samið kemst inn í þingið. Það kunna að vera ýmsar brekkur á leiðinni, en við erum búin að breyta töluvert miklu í löggjöf okkar og vil ég nefna sérstaklega þær lagabreytingar sem fyrrverandi heilbrigðisráðherra, hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, beitti sér fyrir og fékk samþykktar. Þær voru mjög til bóta og má spyrja hvort þetta sé eðlilegt framhald af þeim.

Ég vil ítreka það enn og aftur að staðgöngumæðrun má að mínu viti eingöngu vera í velgjörðarskyni og það er svo okkar að smíða lagaramma þar utan um og meta hvort sá lagarammi er nógu góður þannig að við samþykkjum hann. Þetta mál varðar fáa en fyrir þá sem það varðar er það gríðarlega stórt og mikilvægt. Þess vegna er ég hlynntur því að taka málið áfram þó svo að ég hafi alla fyrirvara á því hvernig endanlegt frumvarp muni líta út og hvort ég mun styðja það yfirleitt.