140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[17:36]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir innlegg hennar. Við getum verið sammála um að málið þarf vandlega skoðun og meiri umræðu og það þarf að vanda vel til vinnunnar við framhald þess, við frumvarpssmíð. Ég held að við hæstv. ráðherra getum verið sammála um það.

Það sem við erum ósammála um er hvort starfshópi ráðherra hafi verið falið að semja frumvarp. Ég tel það vera lykilatriði vegna þess að við náum ekki að svara þeim spurningum sem búið er að velta upp. Það er búið að skrifa skýrslu. Hæstv. ráðherra nefndi það og sagði: Á ekki að hlusta á starfshópa sem hafa skilað skýrslu? Jú, við eigum endilega að gera það, en þá verðum við líka að gera kröfur til þeirra sérfræðinga sem til eru fengnir að þeir kynni sér málið frá öllum hliðum. Ég hef haldið því fram að það hafi ekki verið gert og starfshópurinn hafi ekki farið ítarlega yfir allar þær fjölmörgu rannsóknir sem til eru um þetta mál. Einblínt hefur verið á að skoða þurfi ákveðna hluti þar sem upplýsingar liggja fyrir. Ég tel óþarfa að skoða það sérstaklega og skila ráðherra einhverri skýrslu. Ég vil og er að beita mér fyrir því og við sem erum flutningsmenn þessarar tillögu að Alþingi fái (Gripið fram í.) — ég er alveg sammála því að Alþingi er málstofa — frumvarpið til umfjöllunar að undangenginni allri þessari skoðun og að lokinni allri þessari umræðu getur það þá tekið afstöðu til þess og unnið með það.

Varðandi Norðurlöndin og fyrirmynd í löggjöf þá er ég líka ósammála hæstv. ráðherra vegna þess að mörg framfaramál, sérstaklega er varða mannréttindi, ég nefni réttindi samkynhneigðra, (Forseti hringir.) fæðingarorlofslögin sem við erum mjög stolt af, voru ekki að norrænni fyrirmynd heldur komu aðrar Norðurlandaþjóðir á eftir okkur. Við getum … (Forseti hringir.)