140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[19:44]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þá góðu umræðu sem hefur farið hér fram í dag og raunar fyrr í þinginu um þetta mikilvæga mál. Ég held að umræðan hafi verið gagnleg og þörf. Ég vil lýsa því meginsjónarmiði mínu að eins og stundum í öðrum málum sem hér koma til umfjöllunar eigi nú flestir nokkuð góða samleið í þessu máli þó að umræðan um ólíkar áherslur dragi auðvitað kannski fyrst og fremst fram það sem ber í milli manna.

Auðvitað hefur allt sæmilega velmeinandi fólk ríkan skilning á þörf margra til að eignast börn, einlægri löngun og þeirri lífsfyllingu sem það veitir að vera foreldri. Auðvitað vilja allir eftir því sem kostur er greiða fyrir því að sem flestir fái mætt þeirri löngun og þörf og notið þeirrar lífsfyllingar. Það er eins og hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir sagði hér áðan: Það eru ekki mannréttindi að eignast börn, það er ekki ótvíræður, skilyrðislaus réttur hverrar manneskju.

Börn eiga hins vegar skilyrðislaus mannréttindi og þær sem kynnu að taka að sér staðgöngumæðrun eiga líka ýmis skilyrðislaus réttindi. Eins og fram kom hjá hv. þingmanni þarfnast þessi réttindi sennilega nokkuð víðtækari umræðu og jafnvel í víðtækara samhengi en þessu eina máli en hér hefur farið fram. Það eru a.m.k. gild sjónarmið hjá mörgum sem hafa lyft því í umræðunni.

Ég held að sá fyrirvari sem flestir íhuga í tengslum við þetta mál sé sú eindregna afstaða okkar að við viljum ekki að sumt sé til sölu. Við viljum ekki að hægt sé að kaupa ákveðna hluti og við viljum ekki að hægt sé að misnota ákveðna hluti. Það á auðvitað við um þetta þó svo að ásetningur löggjafans sé einlægur og góður um það að aðeins verði þetta gert í velgjörð og það verði aldrei misnotað og aldrei keypt, við reynum að tryggja eftirlit og ýmiss konar vottun til að svo megi verða, en við Íslendingar vitum af biturri reynslu að ekkert eftirlit er fullkomið og í öllu slíku eru ákveðnar hættur. Ég held að það sé ekki nema eðlilegt og málefnalegt sjónarmið af hálfu margra í þessari umræðu að vilja þess vegna fara sérstaklega varlega, með tilliti til þess hversu gríðarlega alvarleg misnotkun og hversu algjörlega forboðin söluvara gæti verið hér á ferð, þannig að það megi vera algjörlega tryggt að verði þessari nýbreytni skipað í lög sé þannig um búið að sannarlega verði tryggt að ekki séu þær heimildir misnotaðar á þann hátt að greiðslur komi fyrir eða fólk verði þvingað til þess að gera þetta.

Ég held líka að það séu í sjálfu sér engar deilur um það að talsverð vinna er eftir. Hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir sagði: Mikil vinna er eftir — og ég held að það sé rétt hjá hv. þingmanni. Ég held að sönnur á það séu í sjálfu sér málatilbúnaðurinn sjálfur vegna þess að málatilbúnaðurinn er þingsályktunartillaga um vinnu en ekki lagafrumvarp. Hér er ég ósammála flutningsmönnum málsins í grundvallaratriðum og bið þá að íhuga það í hvaða búning málið er sett vegna þess að hér er Alþingi að fyrirskipa ráðherra að flytja frumvarp til laga sem Alþingi treystir sér ekki til að gera.

Okkur alþingismönnum er auðvitað fullkomlega heimilt og skylt að flytja frumvörp til laga, taka þau í gegnum umræður og gera að lögum. Við eigum líka að fela ráðherrum ýmis verkefni, skila skýrslum, svara fyrirspurnum og þar fram eftir götunum. Ég tel að það sé a.m.k. mjög umdeilanlegt hvort þingið geti samþykkt að ráðherra skuli, óháð afstöðu viðkomandi, flytja lagafrumvarp um tiltekið efni. Ég sé ekki hvernig við getum haft það fordæmi að skylda ráðherra í ríkisstjórn til að flytja frumvarp ef þeir hafa ekki sjálfir sannfæringu fyrir því. Ef við í þinginu viljum flytja lagafrumvörp flytjum við lagafrumvörp og gerum þau að lögum, en mér finnst orka ákaflega tvímælis að ætla ráðherra, handhafa framkvæmdarvaldsins, að semja frumvarp sem hann kynni sjálfur að vera andvígur. Nú veit ég ekki til þess að viðkomandi ráðherra sé eindreginnar skoðunar á annan hvorn veginn í þessu málefni en mér finnst þetta kannski þeim mun augljósara þegar um er að ræða málefni af þessu tagi sem varðar siðferðilegar grundvallarspurningar og í sumum tilfellum tilfinningar manna.

Mér finnst ákaflega varhugavert að við í þinginu viðurkennum það að mikil vinna sé eftir og ýmislegt eigi eftir að skoða en ætlum samt að taka ákvörðun um að einn maður skuli flytja frumvarp í sínu nafni og að ríkisstjórn Íslands eigi að veita samþykki sitt við því frumvarpi sem ekki liggur fyrir hvernig á að líta út jafnvel þó að ríkisstjórnin sé ekki samþykk því eða hafi verulegar siðferðilegar efasemdir um innihald þess. Ég verð að segja að ég held að þessi framgangsmáti á málinu sé ekki réttur. Ég hneigist því til þess að styðja þá breytingartillögu sem flutt hefur verið við málið um það að viðkomandi ráðherra verði ekki fyrir fram gert að flytja frumvarp í tiltekna veru heldur skipi hann starfshóp og flytji þinginu skýrslu. Ég held að á grundvelli hennar yrði þinginu þá í lófa lagið að semja lög og samþykkja um þetta efni eða þá ef fram kæmi í skýrslu ráðherrans að hann vildi gera það sjálfur gæti hann gert það.

Hafi flutningsmenn áhyggjur af því að slíkur málatilbúnaður væri til að drepa málinu á dreif tek ég undir með hv. þm. Skúla Helgasyni hér fyrr í umræðunni um að sannarlega kæmi til greina að setja því einhver tímamörk þannig að þinginu væri þá í framhaldi af flutningi skýrslunnar fært að gera frumvarp að lögum á þessu kjörtímabili þannig að vilji þess löggjafarþings sem nú situr kæmi þá fram. Ég hvet flutningsmenn eindregið til að íhuga þessi sjónarmið og líka hvort það sé ekki ýmislegt tilvinnandi til þess að ná sem víðtækastri sátt um þetta skref ef tekið verður.

Hér hefur m.a. verið vísað til þess að við Íslendingar höfum borið gæfu til þess að vera framsækin í málefnum samkynhneigðra og innleitt ýmiss konar réttarbætur, stundum á undan nágrannalöndum okkar og löndum sem við höfum sótt fyrirmyndir til. Þeir miklu áfangar hygg ég að hafi ekki síst unnist á því að þar hafa menn leitað sem allra víðtækastrar samstöðu um hvert skref í þeirri réttindabaráttu og stundum tekið sér eilítið lengri tíma en þeir hefðu nauðsynlega þurft til að geta lokið málum með meiri hluta einmitt til þess að skapa sem víðtækasta samstöðu. Ég held að sú aðferðafræði hafi skapað grunninn að þeirri miklu samstöðu og þeim óumdeildu réttarbótum sem náðst hafa fram á þessu sviði. Ég held að sú aðferðafræði sé eftirbreytniverð og að þeim sem er mikið í mun að ná fram þessum réttarbótum ætti að vera það umhugsunarefni hvort það gæti ekki gagnast þessari nýskipan að ná um hana sem víðtækastri sátt, hvort ekki væri ýmislegt til þess vinnandi, og sömuleiðis hvort það sé ekki óeðlilegt fyrir okkur að ákveða að einhver önnur manneskja eigi að flytja frumvarp um viðkvæm siðferðileg efni sem við vitum ekki hvort hún hefur sannfæringu fyrir á þeim tímapunkti að rétt sé að flytja.