140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[19:55]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Jónína Rós Guðmundsdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langaði aðeins að lesa það sem fram kemur í bæði tillögunni og nefndarálitinu um til hvers sé ætlast af ráðherranum, með leyfi forseta:

„Með tillögunni er lagt til að velferðarráðherra verði falið að skipa starfshóp sem undirbúi frumvarp til laga sem heimili staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni sem lagt verði fyrir Alþingi svo fljótt sem verða má.“

Í raun og veru er því ekkert sem segir að það verði endilega að vera ráðherra, það gæti t.d. verið velferðarnefndin. Mig langar til að koma með þessa ábendingu um leið og ég tek undir með hv. þingmanni að auðvitað er alltaf best að ná víðtækri og góðri samstöðu um málið en þessi vinnuháttur er svo sem ekki óalgengur.

Þegar ég settist á þing og fór að kynna mér réttindamál fatlaðs fólks man ég eftir að starfshópur hafði t.d. verið skipaður, sem átti að skoða þau mál, og hann skilaði frumvarpi eða frumvarpsdrögum, sem voru reyndar ekki lögð óbreytt fyrir. Ég held því að þetta vinnulag sé ekkert óeðlilegt. Starfshópurinn á sem sagt að undirbúa frumvarp til laga og, eins og ég segi, er hvergi sagt að þessi ráðherra eigi endilega leggja það fram heldur að málið verði lagt fyrir Alþingi.