140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

störf þingsins.

[15:02]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil stuttlega vekja máls á þróuninni í Norður-Afríku og Miðausturlöndum, á hinu svonefnda arabíska vori og eftirmálum þess.

Engum blöðum er um það að fletta að þeir vindar lýðræðis og frelsis sem léku um þessi lönd frá því á fyrri hluta síðasta árs vöktu vonir um að nú færi í hönd betri tíð með blóm í haga í þessum heimshluta. Við á Alþingi ræddum stöðu mála nokkrum sinnum og flest vorum við sammála ályktun Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir í Líbíu til að tryggja öryggi almennra borgara og stuðla að lýðræðisþróun þar.

Í síðustu viku birti Amnesty International skýrslu um þróun mannréttindamála í þeim ríkjum á hverjum öldur arabíska vorsins skullu. Það er því miður ekki fögur lesning, frú forseti. Mannréttindasamtökin Amnesty lýsa vonbrigðum með viðbrögð alþjóðasamfélagsins við arabíska vorinu. Því er lýst hvernig ofbeldið heldur áfram þrátt fyrir arabíska vorið og samtökin óttast áframhaldandi ofbeldi og blóðbað. Að mati samtakanna voru viðbrögð alþjóðasamfélagsins fyrst og fremst taktísk, þau komu seint og þau voru prinsipplaus. Niðurstaða skýrslunnar er að stórveldin taki eigin hagsmuni fram yfir mannréttindi.

Í umræðum á Alþingi í mars sl. um ástandið í Líbíu vakti ég og fleiri máls á nákvæmlega þessum þætti og gagnrýndum við einkum stórveldi sem eru leiðandi í alþjóðasamfélaginu fyrir tvískinnung og lýstum áhyggjum af þessu sérstaklega. Skýrsla Amnesty staðfestir þessar áhyggjur og hún bendir á að alþjóðasamfélagið hafi stutt einræðisherrana alveg fram á síðustu stundu eða þar til þeir voru orðnir að pólitískri byrði. Amnesty ræðir sérstaklega ástandið í Sýrlandi og Bahrein og gagnrýnir öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fyrir að aðhafast lítið sem ekkert til að koma í veg fyrir fjöldamorð og í raun slátrun almennra borgara í þessum löndum og svíkja þannig íbúa þeirra.

Frú forseti. Skýrsla Amnesty dregur fram hve tilviljanakennd viðbrögð alþjóðasamfélagsins eru gagnvart ofbeldi og kúgun, mannréttindin eru þar ekki í forgrunni heldur hagsmunir stórveldanna. Það er harðlega gagnrýnisvert og brýnir okkur Íslendinga til að tala ævinlega máli lýðræðis og mannréttinda.