140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að gera að umtalsefni orð hæstv. utanríkisráðherra sem féllu í viðtali við Ríkisútvarpið/sjónvarp 17. þessa mánaðar, fyrir þremur dögum. Þar segir hæstv. utanríkisráðherra, í umræðum um skýrslu sem unnin var í Noregi um EES-samninginn, með leyfi forseta:

„Ég held að þróunin hafi verið svo hröð síðan að við séum komin út fyrir það og það sé algerlega nauðsynlegt að breyta stjórnarskránni til að heimila í reynd þessar ákvarðanir og þetta valdaframsal sem er í dag.“

Mér sýnist, frú forseti, að hæstv. utanríkisráðherra sé að segja það þarna að þær ákvarðanir sem nú eru teknar á Alþingi, um innleiðingu á EES-reglum, standist trúlega ekki stjórnarskrá, svo að ekki sé kveðið fastar að orði. Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir Alþingi að staldra við og setja tappa í innleiðingu á þessum EES-reglum þar til farið hefur verið yfir það hvort við erum að fylgja stjórnarskránni eftir eða hvort hæstv. utanríkisráðherra hafi rétt fyrir sér og breyta þurfi stjórnarskránni til að við getum haldið áfram að framselja vald okkar með þessum hætti.

Þessu tengt vil ég velta því upp hvort ekki sé full ástæða til þess fyrir íslensk stjórnvöld að óska eftir því að sá hluti EES-samningsins sem snýr að ákvarðanatöku og þessu valdaframsali verði endurskoðaður, hvort ekki sé ástæða til að taka samninginn upp hvað varðar þennan hluta. Það er vitanlega ekki hægt að sitja undir því, frú forseti, að mögulega séum við að fara á skjön við stjórnarskrána með innleiðingu á þessum reglum.

Ég vil koma þessu hér á framfæri og mun að sjálfsögðu óska eftir því að þetta mál verði rætt í utanríkismálanefnd og að gaumgæfilega verði farið yfir það frá öllum hliðum.