140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Síðastliðinn mánudag fór forsætisráðherra upp í ræðustól Alþingis og lýsti því að svo vel gengi hjá ríkisstjórninni í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar að í raun og veru væri um kraftaverk að ræða. Í morgun komu fréttir frá Hagstofu Íslands sem hljóða, með leyfi frú forseta, svona:

„Á fjórða ársfjórðungi 2011 voru 175.700 á vinnumarkaði sem jafngildir 78,4% atvinnuþátttöku sem er lægsta hlutfall sem Hagstofan hefur mælt frá upphafi vinnumarkaðsrannsókna frá árinu 1991. Frá fjórða ársfjórðungi 2008 hefur vinnuaflið minnkað um 6.700 manns.“

Þetta er árangur ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum, ríkisstjórnar sem vill ekki kannast við að mesti fólksflótti frá Íslandi hafi átt sér stað á síðasta ári. Forsætisráðherrann hefur ítrekað gert lítið úr þeim mikla vanda sem blasir við.

Við vitum í raun ekki um styrk þessarar stjórnar þegar kemur að því að takast á við mikilvæg verkefni á þingi. Nú er verið að leggja fram metnaðarlausustu samgönguáætlun seinni ára á vettvangi þingsins, sem er reyndar ári á eftir áætlun. Ekki er enn búið að leggja fram rammaáætlun um það hvernig við ætlum að nýta eða virkja íslenska náttúru. Það hefur ekki verið lagt fram svo árum skiptir nothæft frumvarp um breytingar á sjávarútvegskerfinu, það var reyndar gert síðasta sumar en fékk falleinkunn frá öllum sem um málið fjölluðu og kannski ekki hvað síst frá hæstv. utanríkisráðherra sjálfum. Búið er að flækja skattkerfið og gera það svo ógegnsætt, í tíð hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, að við horfum upp á að þeim sem eru starfandi fækkar um 6.700 á síðasta ársfjórðungi síðasta árs miðað við sama fjórðung ársins 2008. Þetta segir okkur að ríkisstjórn hefur hvorki þor né burði til að takast á við mikilvæg verkefni til að fara að fjölga störfum í samfélaginu og koma þannig í veg fyrir að enn frekari fólksflótti verði úr þessu landi.