140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Nú bætir hv. þingmaður um betur. Hann segir í raun að ég hefði átt að úrskurða eða taka ákvörðun í blóra við stjórnsýsluúrskurð sérfræðinga ráðuneytisins. Að sjálfsögðu kom það aldrei til greina. Vitaskuld hefði verið mjög ámælisverð stjórnsýsla hjá hvaða einasta ráðherra sem er að taka ákvörðun um að birta þessar upplýsingar í blóra við niðurstöðu úrskurðarins og í blóra við gildandi lög. Það hefði verið saga til næsta bæjar, svo ekki sé meira sagt, [Kliður í þingsal.] ef ráðherrann hefði kosið að brjóta lögin. Ráðherrann gerði hins vegar það sem honum bar að gera við þessar aðstæður ef hann á annað borð vildi að þessar upplýsingar yrðu gerðar opinberar, sem ég vildi. Það var gert með því að leggja fram frumvarp sem heimilaði að þessar upplýsingar yrðu gerðar opinberar. Þannig hljóta ráðherrar að bregðast við svona úrskurðum en það segir náttúrlega einhverja sögu um hið nýja Ísland sem hv. þm. Þór Saari boðar að hann hvetur til þess að ráðherrar virði að vettugi úrskurði af þeim toga sem ég nefndi. Hann hvetur ráðherra til þess að skauta létt yfir það hvort þeir eru að brjóta lög eður ei. Þetta eru heilmikil tíðindi sem hér er verið að segja.

Hv. þingmaður talar mikið um að það þurfi að endurreisa traust, m.a. á matvælaeftirlitinu í landinu. Halda menn að það væri gott veganesti í þá vegferð að byrja á því að brjóta lögin og hvetja til þess? Eiga ráðherrarnir sem eru pólitískir yfirmenn (Gripið fram í.) matvælaeftirlitsins að brjóta lögin? (Gripið fram í.) Hv. þingmaður — sem ég heyri ekki hvað gjammar fram í — er örugglega ekki að hvetja mig til þess (Forseti hringir.) að halda að menn fari að brjóta lög. Hv. þingmaður ætti að hafa það í huga að daginn sem hv. þingmaður tók sæti á Alþingi undirritaði hún eiðstaf að stjórnarskránni — og ætli því (Gripið fram í.) fylgi ekki að reyna að virða lögin? Hv. þingmaður telur greinilega að það sé ekki ómaksins vert (Gripið fram í.) og hv. þingmaður sem kallar fram í ætti að hafa í huga að hún undirritaði eiðstaf að stjórnarskránni og ætti að virða hana. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Gripið fram í.)