140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[15:50]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Hér er verið að fjalla um mál sem ég tel að þarfnist gríðarlega mikillar umræðu í samfélaginu. Ég var einn af þeim sem flutti breytingartillögu við þetta mál vegna þess að ég taldi að taka þyrfti að málið í smærri skrefum en þingsályktunartillagan sem hér er til umfjöllunar gerir ráð fyrir. Nú hefur sú breytingartillaga verið felld og ég treysti mér ekki til að greiða atkvæði með þingsályktunartillögu sem mælir beinlínis fyrir um að heimila skuli staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni, því að það er það sem tillagan gerir ráð fyrir. Hún gerir ráð fyrir að Alþingi taki efnislega afstöðu til þess að frumvarpið sem koma á inn í þingið heimili staðgöngumæðrun. Ég tel að það sé ekki rétt og að margar áleitnar spurningar komi fram í þingsályktunartillögunni sjálfri sem leita þurfi svara við áður en meginafstaða er tekin. Ég segi því nei við málinu.