140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

vörumerki.

269. mál
[17:18]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Mér sýnist á klukkunni hér í ræðupúltinu að hæstv. ráðherra hafi átt níu mínútur eftir til að svara þeim spurningum sem ég lagði fyrir hann. Mér finnst lágmark við 1. umr. um mál að þeim spurningum sé svarað.

Ég spurði hæstv. ráðherra hversu umfangsmiklar gjaldtökuheimildirnar séu sem við erum að leiða í lög, verði þetta frumvarp að lögum. Erum við að tala um milljónir, tugi milljóna? Þarf að bæta við starfsmönnum? Við hljótum að gera þá grundvallarkröfu til þess ráðherra sem mælir fyrir málinu að hann geti sagt okkur hversu umfangsmikil þessi þjónusta og starfsemi einkaleyfastofa er.

Í öðru lagi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra varðandi heimildir Einkaleyfastofunnar um að fella umsókn úr gildi. Nú rís væntanlega ágreiningur á milli starfsfólks stofnunarinnar og þeirra aðila sem sækja um einkaleyfið. Finnst hæstv. ráðherra ekki koma til greina að hægt verði að áfrýja deilumálum sem slíkum til úrskurðarnefndar óvilhallra aðila sem færu yfir afgreiðslu stofnunarinnar og það hvort hún sé rétt eða röng? Við hljótum líka að þurfa að gæta réttinda þeirra sem þurfa að eiga samskipti við það ágæta fólk sem þar vinnur, sem ég dreg ekki í efa.

Varðandi fjárframlög til stofnunarinnar og hvernig hún er rekin hef ég í kjölfar hrunsins gerst meiri þingræðissinni en ég var áður. Ég hélt að hæstv. fjármálaráðherra væri þingræðissinni líka en hann talar í raun og veru gegn því að Alþingi eigi að skipta sér af þessu máli, það sé ekkert málefni Alþingis, það sé bara málefni ráðherrans og Einkaleyfastofunnar hvernig menn hagi innheimtu gjalda vegna þessarar þjónustu. Ég er einfaldlega ósammála hæstv. ráðherra um það. Er hæstv. ráðherra með einhverjar fleiri tillögur um að draga tennurnar úr Alþingi Íslendinga og afhenda framkvæmdarvaldinu?