140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

stefna um beina erlenda fjárfestingu.

385. mál
[18:22]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra að því hversu mikil áhrif hann hafi haft á samningu þessarar þingsályktunartillögu, þ.e. hve langt þetta mál var komið undir forustu hæstv. fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, Árna Páls Árnasonar, á sínum tíma og hvort hæstv. ráðherra hafi náð að setja sín eigin fingraför á þetta mál. Ef svo er ekki hefði ég talið að hæstv. ráðherra hefði átt að geta ítarlega í ræðu sinni um þátt fyrrverandi hæstv. ráðherra í þessu máli.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra einnar spurningar, af því að hann hefur rætt mikið um að nú sé bein erlend fjárfesting handan við hornið: Hvernig standa beinar erlendar fjárfestingar kísilvers á Bakka við Húsavík og á Reykjanesi sem hæstv. ráðherra hefur verið svo áhugasamur um og viljað hvetja til, hvernig standa þau mál? Ég hef staðið í þeirri trú að það hefði átt að vera búið að ganga frá einhverjum samningum, þ.e. ef fyrirheit hefðu gengið eftir um þau mál.