140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

stefna um beina erlenda fjárfestingu.

385. mál
[18:37]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hvort ekki þurfi áður en erlendir fjárfestar eru hvattir til að fjárfesta hér á landi að tryggja eignarhald landsmanna á auðlindum eins og landi og vatni. Mér finnst það mjög mikilvægt ekki síst í ljósi þess að einstaklingar og fyrirtæki á Íslandi eru mjög skuldsett. Það má nefna sem dæmi að Íbúðalánasjóður hefur enn ekki leiðrétt erlend lán sem voru tekin til kaupa á jörðum og við erum með EES-samning sem felur ekki í sér neinar hindranir á því að fjársterkir aðilar búsettir á EES-svæðinu komi hingað og kaupi allar þær jarðir sem fara á markað á næstu árum.

Ég ítreka spurningu mína: Er ekki nauðsynlegt áður en farið verður í einhverja herferð til að fá erlenda fjárfesta hingað til lands að tryggja eignarhald landsmanna á auðlindunum?