140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011-2022.

393. mál
[11:46]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni um mikilvægi þess að áhersla sé á umferðaröryggi. Umferðaröryggisáætlunin er fjármögnuð samkvæmt þessari samgönguáætlun. Það sem meira er að við tökum til sérstakrar skoðunar metnaðarfull áform sem kallast „núll-sýn“, þ.e. hér verði ekki dauðaslys í umferðinni umfram það sem útilokað er að koma í veg fyrir.

Við höfum náð þessu í flugsamgöngunum. Ef við berum saman slys á sjó nú og fyrr á tíð hefur átt sér stað bylting. Við erum að hrinda af stað slíkri byltingu í umferðaröryggismálum. Hún er ekkert að byrja í dag, en við erum að efla átakið.

Af hverju segjum við ekki að „núll-sýn“ verði samþykkt? Það er vegna þess að í samræmi (Forseti hringir.) við það sem ég áður gat um viljum við vera raunsæ og að innstæða (Forseti hringir.) sé fyrir því sem við segjum. Þetta er markmiðið og að því stefnum við.