140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

staða dýralæknisþjónustu um land allt.

[13:35]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Ég óskaði eftir umræðu við hæstv. landbúnaðarráðherra um þjónustu dýralækna í kjölfar nýrra matvælalaga sem samþykkt voru á öðru þingi á þessu kjörtímabili. Matvælalöggjöf hafði verið hér til umfjöllunar á nokkrum þingum og allnokkrar breytingar urðu á þjónustu dýralækna um land allt, ekki síst í dreifðari byggðum landsins. Ástæðan var sú að í matvælalöggjöf Evrópusambandsins er kveðið á um fullkominn aðskilnað á milli eftirlits annars vegar og þjónustu dýralækna við dýraeigendur hins vegar. Þetta hafði sem sagt hafist hér á landi fyrir nokkrum árum á hluta af landsvæðunum en ekki í dreifðustu byggðum landsins. Hugmyndin var samt áfram sú að ríkisvaldið mundi tryggja jafnan aðgang dýraeigenda að dýralæknisþjónustu og þar með dýravelferð.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd þingsins á þeim tíma gerði sér ljóst að vandamál gætu komið upp við innleiðingu á matvælalöggjöfinni og þær breytingar sem yrðu í kjölfarið og hafði sérstakar áhyggjur af því að Matvælastofnun og ríkisvaldið mundu setja meiri þunga og kraft í að skipuleggja eftirlitshlutann en þjónusta við dýraeigendur færi halloka, og sú hefur orðið raunin. Nefndin gerði kröfu um að ráðuneytið setti fram reglugerðir með löngum tímafrestum, undanþágum og ýmsu fleiru en satt best að segja, svo hratt sé farið yfir sögu á þeim litla tíma sem við höfum hér, fór þannig að hvorki ráðuneytið né Matvælastofnun stóðu almennilega að þessu máli og tímafrestirnir runnu út. Þegar að því kom að semja um þjónustusvæði við dýralækna var eiginlega allur tími uppurinn og ekki var sótt um öll svæði.

Kröfurnar sem settar voru dýralæknum voru líka allverulegar og það snýr að því að í þjónustusamningum við dýralækna voru settar mjög miklar skyldur á dýralækna, allt of miklar, og þeir hafa varla treyst sér til að standa undir þeim. Þjónustusvæðin eru allt of stór, það er mjög langt í þann sem þjónustar á viðkomandi svæði og þetta kemur niður á dýravelferð. Dæmi um þetta má finna víða um land og til að mynda má nefna Húnavatnssýslur, þar hafa heyrst nokkrar sögur um að menn telji að dýravelferð hafi nú þegar verið stefnt í hættu. Því fyrirkomulagi að leggja saman Húnavatnssýslurnar í eitt svæði og stækka þjónustusvæðið, var harðlega mótmælt af Dýralæknafélaginu og einnig starfandi dýralæknum og dýraeigendum á svæðinu. Enginn sótti um þetta svæði þegar það var auglýst upphaflega.

Þess eru dæmi að bændur séu hættir að kalla til dýralækni, og láti annaðhvort undir höfuð leggjast að meðhöndla dýrin eða reyni að gera það með einhverjum hætti sjálfir. Önnur dæmi eru um að skepnur drepist vegna þess að dýralæknir kemst ekki í tæka tíð vegna mikillar fjarlægðar, og að vegna kostnaðar láti menn hreinlega undir höfuð leggjast að gera það sem gera þarf.

Þetta er slæm þróun og skref aftur á bak um tugi ára. Hvorki ráðuneytið né Matvælastofnun virðast hafa getað tekið á vandamálinu og þessar stofnanir vísa hver á aðra þegar bændur og dýraeigendur hafa samband við þær. Þetta er nokkuð sem við verðum að taka á.

Annar þáttur hefur líka breyst á sama tíma en það eru vaktsvæðin. Ríkisvaldið hefur tekið að sér að tryggja að dýralæknar séu á vakt til að tryggja dýravelferð í landinu. Þar hefur verið skorið niður, ekki er alls staðar sólarhringsvakt heldur einungis bakvakt, og svæðunum hefur einnig verið fækkað. Þau eru orðin það stór að menn treysta sér hreinlega ekki til að standa þessar vaktir og taka þjónustuna að sér. Þeir komast einfaldlega ekki yfir þetta.

Samningarnir runnu út í haust, 1. nóvember, og þess eru dæmi að ekki hafi verið greitt síðan og því hefur ekki verið svarað hvort til greina komi að taka á þeim vanda sem fylgir allt of stórum svæðum til að tryggja dýravernd og manneskjulegra umhverfi fyrir þá sem þarna vinna. Ég hefði líka viljað ræða um skráningarskyldu og þá reglugerð sem ráðuneytið setti um skráningarskyldu dýrasjúkdóma og dýralyf en tíminn leyfir það ekki. Allt þetta leggst saman og gerir starfsumhverfi dýralækna mun erfiðara en áður var. Því spyr ég hvað nýr landbúnaðarráðherra ætlar að gera til að tryggja jafnan aðgang dýraeigenda að dýralæknisþjónustu, tryggja dýravelferð, og hvernig ætlar hæstv. ráðherra að tryggja (Forseti hringir.) að dýralæknar fáist til starfa í dreifðustu byggðum landsins.