140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[11:09]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Við stöndum hér 20. janúar og ræðum þingsályktunartillögu formanns Sjálfstæðisflokksins á þriggja ára afmæli búsáhaldabyltingar. Forsaga þessa máls nær aftur til haustsins 2008 er fyrrverandi forsætisráðherra og aðrir fulltrúar þingflokka á Alþingi ákváðu að skipa rannsóknarnefnd Alþingis en skýrsla hennar ætti að liggja til grundvallar ályktunum Alþingis um hvort ráðherrar hefðu brotið lög um ráðherraábyrgð í aðdraganda hrunsins.

Virðulegi forseti, ég hef meiri tíma en sést á klukkunni.

(Forseti (ÁRJ): Forseti vekur athygli á því að klukkan er ekki rétt, en forseti tekur tímann hér í borðinu.)

Þannig var lagt af stað, virðulegi forseti, undir forsæti fyrrverandi forsætisráðherra án þess að leggja til breytingar á lögum um ráðherraábyrgð eða landsdóm. Vorið 2010 ákvað Alþingi að skipa nefnd þingmanna til að móta afstöðu Alþingis til skýrslunnar og taka ákvörðun um hvort vísa ætti málum einstakra ráðherra til landsdóms vegna hugsanlegra brota á lögum ráðherraábyrgð. Sjö af níu nefndarmönnum töldu að málum þriggja eða fjögurra ráðherra ætti að vísa til landsdóms en Alþingi ákvað hins vegar að einungis væri ástæða til að vísa máli eins, þ.e. fyrrverandi forsætisráðherra, til landsdóms.

Í málflutningi fyrir landsdómi krafðist verjandi ákærða þess að málinu yrði vísað frá og reisti kröfu sína á fimm atriðum. Hann taldi í fyrsta lagi að rannsókn málsins væri verulegum annmörkum háð, í öðru lagi að saksóknari Alþingis væri vanhæfur til að fara með málið, í þriðja lagi að ákæran væri svo vanreifuð að hún gæti ekki orðið viðhlítandi grunnur fyrir rekstri málsins fyrir dómi, í fjórða lagi að reglur um aðdraganda, undirbúning og rekstur málsins fyrir landsdómi svo og refsiheimildir laga um landsdóm væru svo óljósar að ekki yrði tryggt að viðkomandi fengi notið réttlátrar málsmeðferðar og í fimmta lagi að ekki hefði verið gætt að 65. gr. stjórnarskrárinnar með því að höfða mál eingöngu á hendur ákærða.

Í úrskurði landsdóms frá 3. október 2011 er öllum þessum atriðum vísað frá nema hvað snertir lítinn hluta efnisatriða málsins. (Gripið fram í.) Landsdómur er sem sagt búinn að kveða upp úr um að rannsókn málsins hafi ekki verið annmörkum háð, að saksóknari sé ekki vanhæfur, að ákæran sé ekki vanreifuð og að reglur um aðdraganda, undirbúning og málarekstur fyrir landsdómi eða refsiheimildir landsdómslaganna séu svo skýrar að tryggt sé að viðkomandi njóti réttlátrar málsmeðferðar. Svo segir landsdómur að gætt hafi verið að 65. gr. stjórnarskrárinnar, um að höfða beri mál eingöngu gegn einum aðila.

Svo segir landsdómur, virðulegi forseti:

„Reynist mat ákæranda, sem ákvörðun um ákæru er reist á, rangt eða í ljós kemur við meðferð málsins fyrir dómi að skorti á að það sé nægilega upplýst eða rennt sé nægilegum stoðum undir sakargiftir á hendur ákærða til að þær teljist sannaðar ber ákæruvaldið halla af því með þeim hætti að ákærði verði sýknaður af sakargiftum. Er sú niðurstaða ákærða hagfelldari en frávísun máls sem getur leitt til þess að bætt sé úr þeim annmörkum að málið yrði ákært að nýju.“

Svo segir landsdómur:

„Samkvæmt framansögðu eru ekki þeir annmarkar á rannsókn máls að varðað geti frávísun þess og verður þessum röksemdum ákærða því hafnað.“

Virðulegi forseti. Þegar öllu er á botninn hvolft eigum við hér í þessum sal að taka afstöðu til þess hvort eitthvað hafi komið fram í málinu efnislega sem eigi að leiða til þess að Alþingi taki málið inn á sitt borð og/eða eitthvað hafi efnislega komið fram sem breyta á afstöðu Alþingis.

Þá vil ég vekja athygli Alþingis á því að málsástæður eins og þær liggja fyrir í dag hafa farið í gegnum nálarauga saksóknara svo og nálarauga landsdóms og málið er áfram í ferli. Það má leiða að því líkur að saksóknari telji málið gegn fyrrverandi forsætisráðherra líklegt til sakfellingar því að annars hefði viðkomandi greint Alþingi frá því. Hvað lét saksóknari Alþingis hafa eftir sér þegar úrskurður landsdóms lá fyrir 3. október sl.?

Í viðtali við Morgunblaðið þann dag segir:

„„Þetta breytir ekki miklu fyrir undirbúning málsins og málsmeðferðina,“ segir Sigríður J. Friðjónsdóttir, saksóknari Alþingis, um niðurstöðu landsdóms að vísa frá tveimur ákæruliðum af sex gegn Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra.

Landsdómur taldi að þessir tveir liðir ákærunnar væru ekki nægilega skýrir og vísaði þeim frá. Þetta þýðir að efnislegur dómur verður felldur um hina fjóra liði ákærunnar.“

Svo er vitnað beint í saksóknara:

„„Það eru þarna tveir liðir sem landsdómur telur að hafi ekki verið nægilega skýrir. Fyrri liðurinn, þ.e. fyrsti liður ákærunnar, er til fyllingar öðrum ákæruliðum eða eins og segir í úrskurðinum, „litið verði á hina almenna lýsingu á þessum lið sem hluti af ákæru í öðrum liðum hennar“. Þetta er því ekki sjálfstætt ákæruefni að mati landsdóms.

Seinna atriðið, liður 1.2. í ákærunni, fer út en landsdómur telur að hann heyri að hluta til undir annan ákærulið. Þetta breytir því ekki miklu fyrir undirbúning málsins og málsmeðferðina,““ hefur Morgunblaðið eftir Sigríði.

Fjórar meginástæður eru dregnar fram í þeirri tillögu sem hér liggur fyrir um efnisatriði málsins. Í fyrsta lagi að komið hafi skýrar í ljós að um alþjóðlega kreppu hafi verið að ræða. Það er í raun og veru ekkert nýtt fyrir þennan þingheim, það vissum við fyrir rúmu ári. Ég held hins vegar að á þeim tíma sem liðinn er hafi komið æ betur í ljós hvaða afleiðingar fjármálakreppurnar hafa haft á fyrirtæki og heimili í landinu.

Þá er talað um að frávísun ákæruatriða sé ástæða til þess að Alþingi taki nýja ákvörðun, en eins og landsdómur segir og sömuleiðis saksóknari sjálfur skipta þau litlu.

Þá er vísað til þess að viðkomandi standi einn. Það er óþarfi að rifja það upp í þessum sal en hver og einn greiddi hér atkvæði eftir bestu samvisku haustið 2010 og því er í raun og veru þessi röksemd ekki rétt út frá réttarfarslegu sjónarhorni. Ef menn grípa þessa röksemd eru menn um leið að viðurkenna að hér hafi verið um pólitískan gjörning að ræða, að flokkspólitík hafi ráðið för, ekki efnisatriði málsins, enda er hér um að ræða fyrrverandi forsætisráðherra. Niðurstaða landsdóms frá 3. október er sömuleiðis þannig að ekki sé grundvöllur frávísunar að einungis einn sé ákærður.

Þá er talað um það í þingsályktunartillögunni að kostnaðurinn sé of mikill. Líklega hefur reyndar meginþungi kostnaðarins þegar fallið til og ef við ætlum að láta kostnaðarmatið ráða við svona kringumstæður ættum við væntanlega að leggja niður embætti sérstaks saksóknara.

Staðreyndin er sú, virðulegi forseti, að ekkert efnislegt hefur komið fram sem gefur til kynna að Alþingi ætti að taka nýja ákvörðun í málinu. Saksóknari hefur ekki talið að nægilega skýrar ástæður til þess að draga málið til baka séu komnar fram og úrskurður landsdóms frá 3. október fer efnislega ofan í málið. Hann ákveður að víkja frá tveimur atriðum en engu að síður standa eftir fjögur atriði. Þau eru ekki minni háttar.

Gleymum því ekki sem gekk hér á vormánuðina 2008 þegar áköll komu fram erlendis um aðgerðir til að minnka bankana, t.d. skýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og símtal frá seðlabankastjóra Bretlands. Gleymum því ekki að þegar útstreymi hófst af peningum á innlánsreikningum átti Landsbankinn einungis eftir örfáa daga ólifaða og þegar gengið var frá gjaldmiðilssamningi við norrænar þjóðir og ráðherrar skuldbundu sig til þess að minnka bankakerfið. Þetta og fleira kom fram á fjölmörgum fundum æðstu stjórnenda landsins vorið 2008.

Eftir úrskurð landsdóms standa eftir fjögur ákæruatriði:

1. Að ákærði hafi vanrækt að gæta þess að störf og áherslur samráðshópsins væru markvissar og skiluðu tilætluðum árangri.

2. Að hafa vanrækt að hafa frumkvæði að virkum aðgerðum af hálfu ríkisvaldsins til að draga úr stærð bankanna þegar upplýsingar lágu fyrir um vöxt þeirra og hættulega stöðu.

3. Að hafa ekki fylgt eftir og fullvissað sig um að unnið væri með virkum hætti að flutningi Icesave-reikninga Landsbankans.

4. Að hafa ekki haldið ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni.

Það eru vissulega skiptar skoðanir meðal lögfróðra manna um hvort Alþingi geti tekið nýja ákvörðun. Hér hefur verið vitnað í grein Andra Árnasonar, verjanda Geirs, sem hann skrifaði í Tímarit lögfræðinga en þar tekur hann undir með Gunnari G. Schram og í sjálfu sér Ólafi Jóhannessyni sem skrifaði í Stjórnskipun Íslands að eftir að Alþingi hefur samþykkt málsókn og kosið sækjanda og þingnefnd fimm manna honum til aðstoðar sé málið komið úr höndum Alþingis. Það er óþarfi að rifja þetta hér upp að nýju.

Kæri forseti. Landsdómur hefur sem sagt staðfest að meðferð Alþingis hafi verið rétt, meðferð rannsóknarnefndar og þingmannanefndar hafi verið í lagi og að ákæran hafi verið í lagi sem og starf saksóknara. Þá segir landsdómur að veigamestu ákæruatriðin standi skýr eftir þannig að hægt sé að taka afstöðu til sektar eða sýknu. Þannig hefur ekkert breyst í málinu efnislega frá því að Alþingi tók ákvörðun hér áður. Hafi hins vegar einhverjir hug á því að skipta um skoðun á því hvort málið eigi að fá efnislega meðferð fyrir landsdómi er það ekki á grunni þess að brotið hafi verið á réttindum viðkomandi ráðherra og ekki heldur að eitthvað efnislegt hafi komið fram, heldur eru þeir hinir sömu að viðurkenna að ákvörðun sína hafi þeir tekið út frá pólitískum sjónarmiðum en ekki efnislegum. Ekkert efnislegt hefur breyst í málinu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Hafi þingmenn byggt ákvörðun sína á efnisatriðum málsins ættu þeir að vera sömu skoðunar nú og þá því að ekkert hefur komið fram sem ætti að breyta afstöðu þeirra.

Ég ítreka, virðulegi forseti, að ég hef enga sérstaka hagsmuni af því að fyrrverandi forsætisráðherra verði dæmdur sekur. Ég vona bara að okkar bestu lögspekingar í landsdómi komist að réttri niðurstöðu í málinu, hvort sem sú niðurstaða kveður á um sekt eða sakleysi viðkomandi.

Ég legg ásamt þremur öðrum þingmönnum hér fram tillögu til rökstuddrar dagskrár sem kveður á um að þessu máli verði vísað frá. Mig langar, með leyfi forseta, að lesa upp þá dagskrártillögu en ég verð að viðurkenna að ég hef enga hugmynd um hversu langan tíma ég á eftir af ræðu minni.

(Forseti (ÁRJ): Það er ljóst á klukkunni í borðinu, hún var leiðrétt í miðri ræðu. Ræðutíminn er liðinn.)

Þá vísa ég til þessarar rökstuddu dagskrártillögu en þar kemur skýrt fram, virðulegi forseti, að við teljum að vísa eigi þessu máli frá.