140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[11:23]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þessu er auðsvarað, sú þingnefnd sem fær svona mál til meðferðar þarf einmitt að fara yfir þær fullyrðingar sem er til dæmis að finna í frávísunartillögu hv. þingmanns, fara yfir það hvort um er að ræða breyttar forsendur eða ekki. Það er alvanalegt í nefndarstörfum þingsins og í þingstörfum almennt að menn séu ósammála um niðurstöðuna en taki samt umræðuna.

Í þessu tilviki væri það hlutverk nefndar þingsins og eftir atvikum okkar hér við seinni umr. að fara einmitt yfir rökin fyrir tillögu hv. þm. Bjarna Benediktssonar og gagnrök hv. þm. Magnúsar Orra Schrams. Efnisleg andstaða hv. þm. Magnúsar Orra Schrams við þá niðurstöðu sem tillaga Bjarna Benediktssonar gerir ráð fyrir er ekki rök fyrir því að vísa málinu frá þinglegri meðferð í miðju kafi.