140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[11:34]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Um fundarstjórn forseta verð ég að segja að ég skil ekki umræður hv. þingmanna Illuga Gunnarssonar og Bjarna Benediktssonar um hana. Spurning Illuga Gunnarssonar um hvað menn telji hér um sekt og sakleysi þess manns sem fyrir landsdómi stendur — henni hefur þegar verið svarað. Henni var svarað í september 2010 (Gripið fram í.) með því að menn tóku beinlínis afstöðu til þess hver fyrir sig um fjóra menn, hvort meiri eða minni líkur væru til sakfellingar í landsdómi eins og við áttum að gera, (Gripið fram í.) eins og okkur var gert að gera. Menn svöruðu því hver fyrir sig nema þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem svöruðu því 16 saman einni röddu af flokkspólitískum ástæðum sem hann er hér enn að bera fram og reynir að þvæla mönnum inn í það að vera sjálfur landsdómurinn. Það er ekki þannig. Menn tóku afstöðu til þeirra líkna sem væru á sakfellingu en settu sig ekki í dómarasæti eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson og fylgismenn hans vilja að (Forseti hringir.) við gerum hér á þinginu.