140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[11:58]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Komið hefur fram, m.a. í grein forseta lagadeildar Háskóla Íslands, að orðið hafa breytingar á þeim tíma sem liðið hefur frá því að Ólafur Jóhannesson og Gunnar G. Schram rituðu pistla sína. Hv. þingmaður nefndi orðalag í lögum um landsdóm, þ.e. „eftir því sem við getur átt“. Er það ekki einmitt þess vegna sem talað er um breytingar á lögum um meðferð sakamála frá 1963 að lögin hafa breyst hvað það varðar og þess vegna þurfi að taka tillit til þess?

Úr því að þingmaðurinn spyr út í þau atriði sem eftir standa benti ég á það í ræðu minni að innihald eða mikilvægi þeirra hljóti að hafa breyst við það að tveimur aðalákæruliðunum var vísað frá. Þegar inn kemur tillaga um að vísa málinu frá þar sem m.a. vísað er til þessa, hljótum við þingmenn að þurfa að meta það og fá tækifæri til þess að kanna hvort það sé rétt. Sú nefnd sem fær málið til meðferðar þarf væntanlega að fara yfir það og kveða upp úr um það. En þinginu er ekki gefið færi á að skýra þetta ef málinu verður vísað frá. Það er ekki gott.